Sjómannsdóttir fékk langþráð símtal frá Vitafélaginu

Mynd: RÚV / RÚV

Sjómannsdóttir fékk langþráð símtal frá Vitafélaginu

20.07.2021 - 16:31

Höfundar

„Þetta er hálfgert kraftaverkahljóðfæri,“ segir tónlistarkonan Kira Kira um forláta sveiflíru sem hún fékk lánaða af sögusýningu í Útvarpshúsinu. Líran á sér ótrúlega sögu því hún komst heil úr Geysisslysinu í Vatnajökli í september 1950. Kira leikur á líruna á tónleikum í sumar.

Sumarlandinn kíkti á Stokkseyri með forláta strengjahljóðfæri meðferðis sem nefnist sveiflíra. Alla jafna er hljóðfærið varðveitt á sögusýningu í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í Reykjavík en tónlistarkonan Kira Kira, Kristín Björk Kristjánsdóttir, hefur óskað eftir að fá það lánað. „Að fá að halda á og leika við þetta ótrúlega hljóðfæri, þetta er hálfgert kraftaverkahljóðfæri,“ segir Kira Kira. „Það lifði af alveg svakalega flugferð.“ Kristín vísar þar í Geysisslysið, því hljóðfærið var um borð í flugvélinni Geysi sem brotlenti á Vatnajökli í september 1950.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristín kallar líruna hálfgert kraftaverkahljóðfæri

Kristín festi nýlega kaup á húsi sem nefnist Garðhús og var byggt 1890. Húsið er burstabær og elsta húsið á Stokkseyri. „Það er gamall draumur að rætast að komast í skjól,“ segir hún stolt.

Ásamt því að koma sér fyrir í Garðhúsi spilar hún í sumar á sumartónleikaröð Þjóðlagasetustins á Siglufirði með verkefni sem heitir Strandverðir sálarinnar og er einnig með tónlistarinnsetningu í vitum landsins í sumar. „Sjómannsdóttirin hafði rosalega gaman af símtali sem ég fékk frá formanni Vitafélagsins á sjálfan sjómannadaginn þar sem hún bauð mér að vera með tónleika í Knarrarósavita á Stokkseyri,“ segir Kira Kira. Hún heldur sjálf mikið upp á vita sem hún nefnir „ótrúlegar ljósverur og vegvísi sjómanna í gegnum tíðina.“

Sigrún Hermannsdóttir ræddi við Kiru Kiru í Sumarlandanum á RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Blása lífi í gömul torfhús

Mannlíf

Sefur undir björtum himni allar nætur