Sex handteknir í slagsmálum á Akureyri

20.07.2021 - 21:51
Mynd: Aðsend / Aðsend
Sex voru handteknir í slagsmálum í miðbæ Akureyrar nú á níunda tímanum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu brotnaði rúða í átökunum, en litlar upplýsingar fást annars að svo stöddu.

Vitni lýsa því í samtali við fréttastofu að rúða á veitingastaðnum Bláu könnunni hafi brotnað þegar einn maður hoppaði á annan og flugu þeir báðir í gegnum hana.

Árni Páll Jóhannsson, aðal­varðstjóri hjá lögreglunni á Ak­ur­eyri, segir í samtali við fréttastofu að einn mannanna hafi verið fluttur á sjúkrahús. 

Ekki fást upplýsingar um tildrög slyssins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV