Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sækist eftir tollfrjálsum aðgangi með sjávarafurðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, leggur áherslu á betri aðgang Íslands að mörkuðum með fisk og sjávarafurðir í viðræðum við æðstu stjórnendur Evrópusambandsins. 

Guðlaugur Þór fundaði í gær með Josep Borrell utanríkismálastjóra sambandsins, Valdis Dombrovskis viðskiptamálastjóra þess, Virginijus Sinkevičius framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og Janusz Wojciechowski framkvæmdastjóra landbúnaðarmála.

Á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að tilgangur fundanna var að sækjast eftir auknum tollfrjálsum aðgangi fyrir sjávarafurðir. Það tengist viðræðum EES og EFTA ríkjanna við Evrópusambandið um framlög til Uppbyggingarsjóðs EES næsta starfstímabil 2021 til 2027.

Utanríkisráðherra nýtti tækifærið til fylgja eftir kröfum um endurskoðun samnings um landbúnaðarvörur. Viðræður þess efnis hófust í desember á síðasta árin en hafa ekki enn skilað árangri.

Guðlaugur fagnar samtalinu og segir sanngirni í viðskiptum hljóta að vera öllum í hag, enda sé Ísland eitt nánasta samstarfsríki Evrópusambandsins.