Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sá hæfasti ekki skipaður og óskar rökstuðnings

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tilkynnt var í gær að dómsmálaráðherra hefði skipað Birgi Jónasson í embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra. Hæfisnefnd hafði aftur á móti metið Helga Jensson hæfastan umsækjenda. Helgi hefur óskað eftir rökstuðningi frá dómsmálaráðuneyti vegna skipunarinnar.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar 27. mars og rann umsóknarfrestur út 19. apríl. Átta sóttu um og komst hæfisnefnd að þeirri niðurstöðu að allir uppfylltu þeir almenn hæfniskilyrði til að hljóta skipun í embættið. 

Nefnd taldi Helga standa öðrum framar

Í umsögn hæfisnefndarinnar segir að þegar tekið sé tillit til heildarmats á hæfniþáttum standi Helgi öðrum umsækjendum framar og sé mjög vel hæfur til að gegna embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra. Embættið sé að mörgu leyti áþekkt því embætti sem hann hafi starfað hjá, hann verið staðgengill bæði sýslumanna og lögreglustjóra í nær þrjá áratugi.

Helgi hefur verið fulltrúi og staðgengill hjá sýslumanninum á Seyðisfirði og hjá sýslumanninum á Eskifirði. Þá hefur hann verið settur sýslumaður á Eskifirði, Höfn og Seyðisfirði um skemmri tíma og settur héraðsdómari á Austurlandi um tiltekinn tíma og í einstök mál.

Fréttastofa náði tali af Helga í morgun. Hann hefur óskað eftir rökstuðningi vegna skipunarinnar. 

Sá sem metinn var næsthæfastur ráðinn

Næstur á eftir Helga í hæfismatinu var Birgir, sá sem skipaður hefur verið lögreglustjóri. Ráðningin var tilkynnt á vef dómsmálaráðuneytisins í gær. Nefndin mat hann vel hæfan til að gegna embættinu. Í umsögn hennar segir að þó að hann hafi minni reynslu á því sviði sem um ræðir hafi hann fjölbreyttari reynslu en Helgi. Birgir hafi sinnt kennslu og hafi meiri yfirsýn yfir aðra þætti innan lögreglunnar sem geti nýst vel í umræddu embætti. 

Birgir hefur meðal annars starfað hjá embætti sérstaks saksóknara, fyrst sem sérfræðingur og síðar sem ákærandi. Frá 2011 til 2012 var hann einnig aðstoðarmaður saksóknara Alþingis í Landsdómsmálinu. Birgir starfaði á sviði innri endurskoðunar hjá Arion banka 2016 til 2019. Frá 2019 hefur hann starfað hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra auk þess að sinna kennslustörfum á háskólastigi.  

Í umsögn hæfisnefndar segir að samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar beri almennt að ráða hæfasta umsækjandann í opinbert starf. Hæfisnefndin hafi metið umsækjendur á grundvelli faglegra verðleika þeirra og hafi í því sambandi haft hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem umboðsmaður Alþingis benti meðal annars á í ársskýrslu sinni fyrir árið 2016 um hvernig haga beri mati á umsækjendum um stöður á vegum hins opinbera.

Fréttastofa hefur sent dómsmálaráðuneytinu fyrirspurn vegna málsins. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir