Reykjavíkurdætur, GDRN + Flóni og Sinfó með nýtt sprell

Mynd: RÚV / Tónaflóð

Reykjavíkurdætur, GDRN + Flóni og Sinfó með nýtt sprell

20.07.2021 - 16:50

Höfundar

Það vantar ekki nýja íslenska tónlist þennan þriðjudaginn og er boðið upp á nýja útgáfu af Lætur mig í flutningi GDRN, Flóna og Sinfó auk þess sem Reykjavíkurdætur láta sig varða málefni mæðra. Önnur með nýtt efni að þessu sinni í Undiröldunni eru Aron Can, Boncyan, Kahninn, Grasasnar, ferrARI, Draumfarir og Kristín Sesselja.

Flóni, GDRN og Sinfó – Lætur mig

Í vikunni kemur út upptaka af laginu Lætur mig í flutningi GDRN, Flóna og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lagið er gefíð út í tilefni af stórtónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar, NýKlassí, þar sem hún spilar ásamt mörgum af vinsælustu tónlistarmönnum landsins af yngri kynslóðinni.


Aron Can – Blindar götur

Tónlistarmaðurinn Aron Can sendi frá sér sína fjórðu plötu, Andi, líf, hjarta, sál. Hún inniheldur smellinn Flýg upp og lagið Blindar götur sem er það nýjasta sem lögð er áhersla á hjá plötuútgáfufyrirtæki kappans, Sony DK.


Draumfarir og Kristín Sesselja – Með þér

Draumfarir hafa sent frá sér lagið Með þér þar sem þeir njóta liðsinnis Kristinar Sesselju sem hlustendur ættu að kannast við. Lagið er að sögn sveitarinnar grípandi popp sem er samið af þeim Birgi, Ragnari og Kristínu en upptökustjórn var í höndum Arnars Guðjóns.


Boncyan – Turn It All Around

Boncyan, sem hefur sent frá sér lagið Turn It All Around, er ný poppsveit sem skartar tveimur af reyndustu pródúserum landsins, hinum færeysku Janusi Rasmussen (Bloodgroup, Kiasmos) og Sakarisi auk þriðja pródúsersins, hins enska Toms Hannay sem er líka söngvari sveitarinnar. Saman hafa þeir þremenningar fengið ótal tilefningar og tónlistarverðlaun á innlendum og alþjóðlegum vettvangi en þeir færeysku hafa starfað hér á landi í um 15 ár.


Kahninn – We Go Up

Guðmundur Jens Guðmundsson sem kallar sig Kahninn hefur sent frá sér lagið We Go Up. Með honum í laginu er valinn maður í hverju rúmi og þar á meðal Jói Helga í bakröddum en hann var þú í dúettinum Þér og mér.


Grasasnar – Sunnlenskir draumórar

Grasasnar eru vestlensk hljómsveit úr Borgarfirði sem stefnir að því að senda frá sér aðra plötu sína, Prine, í nóvember. Hún er tileinkuð og inniheldur lög Johns Prine sem Grasasnarnir; Steinar Berg, Sigurþór Kristjánsson, Halldór Hólm og Siggi Bach halda mikið upp á.


Reykjavíkurdætur – Hot Milf Summer

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur, sem er skipuð þeim Sölku Valsdóttur, Þuríði Blæ Jóhannsdóttur, Þuríði Kristínu Kristleifsdóttur, Steinunni Jónsdóttur, Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur, Steiney Skúladóttur og Jóhönnu Rakel Jónasdóttur hefur sent frá sér lagið Hot Milf Summer. Það er fyrsta lagið sem sveitin gefur út á árinu og von er á myndbandi í lok mánaðarins.


FerrARI – PS5

Ari Jakobsson er ungur tónlistarmaður úr Mosfellsbæ sem hefur sent frá sér plötuna Rarri Club sem inniheldur þrettán lög. Þar meðal er óður hans til PS5, PS5.