Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast um stöðu viðkvæmra hópa fari smitum fjölgandi

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjörutíu og fjögur kórónuveirusmit greindust í gær innanlands og á landamærum. Flest voru smitin utan sóttkvíar og dreifð um land allt. Sóttvarnarlæknir óttast að veiran nái til veikari hópa samfélagsins haldi smitum áfram að fjölga.

Þórólfur segir að upp sé komið töluvert samfélagslegt smit. Flestir sem greinst hafa eru fullbólusettir og alvarleg veikindi hafa ekki komið upp. Hann segir að ef smitum fer enn fjólgandi óttist hann að þau berist í viðkvæma hópa. En eru hertar sóttvarnaraðgerðir þá í bígerð innanlands?

„Maður hefur vonast til þess að bólusetningin veitti góða viðspyrnu við mikilli útbreiðslu og alvarlegum veikindum. Við sjáum hins vegar áfram töluvert mikla útbreiðslu hjá bólusettum þannig að það er greinilegt að bólusetningin virkar ekki nógu vel til að koma í veg fyrir smit.“

Þórólfur telur smitin að megninu til vera af delta-afbrigðinu. „Þannig að þá er bara um að ræða ef við viljum hafa tögl og hagldir í þessum faraldri, þessari bylgju sem er nú komin af stað, þá höfum við ekki önnur ráð en þau sem við höfum þurft að grípa til áður.“

Árangur næst því fyrr sem gripið verður til aðgerða

Hann segir menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort við séum komin nákvæmlega á þann stað núna, en bendir á að því fyrr sem gripið er til aðgerða því fyrr náist árangur og fyrr verði hægt að aflétta en ef of lengi er beðið.

„Ef við látum veiruna bara ganga yfir samfélagið fáum við örugglega alvarlegar sýkingar hjá mjög mörgum.  Ég held við þurfum bara að líta á þetta, ekki með óskhyggju, heldur með raunsæjum augum.“

Þórólfur segir ekki sömu samstöðu í ríkisstjórninni og var, sem sé miður að hans mati. 

„Það breytir ekki endilega miklu um þær tillögur sem ég þarf að koma með. Ég hef ákveðið starf og ég verð að sinna því af trúmennsku. Síðan verða þá aðrir að ákveða hvað verður útfært eða hvað ekki.“