Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óskynsamlegt að halda útihátíðir við þessar aðstæður

20.07.2021 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Már Kristjánsson, formaður farsóttarnefndar Landspítalans, segir alveg ljóst að kórónuveirufaraldurinn sé í vexti hér landi og hann hitti mjög mikið ungt fólk.

Líklegt sé að þetta ástand vari næstu mánuði jafnvel ár. Hann segir það ekki skynsamlegt fyrir íslenskt samfélag að halda útihátíðir við þessar aðstæður. 

Alls greindust 44 smit í gær, 38 innanlands og 6 á landamærum. Þetta er mesti fjöldi smita sem greinst hefur á einum degi á þessu ári. Már segir farsóttarnefnd spítalans hafa þurft að taka nokkur skref til baka og innleiða grímuskyldu fyrir alla starfsmenn eins og heimsóknargesti.

Óttast þú að faraldurinn sé í vexti?

„Já, já. Það er engin spurning. Við erum núna með 166 einstaklinga á göngudeild sem við erum að fylgja eftir og það hefur bæst við bara fram eftir degi,“ segir Már og bætir við að athyglisvert sé  hve mikið er af ungu fólki.

Spurður hvort honum þyki forsvaranlegt að halda stórar útihátíðir eins og fyrirhugaðar eru á næstunni, segir Már það umhugsunarvert og bætir svo við:

„Ég held það sé í rauninni ekki skynsamlegt að gera það. Þarna kemur ungt fólk saman og áfengi er haft um hönd. Ég held það sé ekki skynsamlegt að gera það fyrir okkar samfélag.“