Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krafan um neikvætt COVID-próf eðlileg og skynsamleg

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir eðlilegt að bólusettir einstaklingar sem komi til landsins sýni neikvætt COVID-próf. Hann segir stöðuna í kórónuveirufaraldrinum hér á landi vera þar sem búast megi við í ljósi viðamikilla bólusetninga.

„Bóluefnið veitir býsna góða vörn sjúkdómi. Það veitir ekki eins góða vörn gegn sýkingu og búist var við. Það er að segja að það er töluvert algengt að fólk sem hefur verið bólusett hýsi veiruna, sé sýkt af veirunni og geti þar af leiðandi borið hana til þeirra sem ekki eru bólusettir.“

Undanfarið hafi raðgreiningargögn sýnt að veiran berst töluvert oft yfir landamærin með bólusettu fólki. Þar til nú hafi ekki þurft að framvísa neikvæðu COVID-prófi. 

„Ég held það hafi verið eðlileg og skynsamleg ráðstöfun að fara fram á að þeir sem hingað koma bólusettir, að áður láti þeir kanna hvort þeir séu með veiruna og komi ekki nema þeir séu með neikvætt próf.“

Kári segir klaufalegt af stjórnmálamönnum að fullyrða að aðgerðirnar nú trufli ferðaþjónustuna. Aðgerðirnar nú telur Kári að þjóni ferðaþjónustunni og samfélaginu vel.  

„Þær ráðstafanir sem sóttvarnayfirvöld hafa ráðlagt gerðu það að verkum að við gátum opnað landið fyrr en nokkurt annað land í Evrópu. Ráðstafanir sem sóttvarnayfirvöld lögðu til þjónuðu ferðaþjónustunni betur en nokkuð annað sem gert var í Evrópu.“