Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gosið vaknað að nýju eftir tólf tíma kríu

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Litlar líkur eru á gasmengun á höfuðborgarsvæðinu í dag. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að gosið sjálft hafi haft hljótt um sig í nótt en vaknaði með morgninum.

„Gosið tók sér eina af þessum kríum sem það hefur tekið. Óróinn lá niðri frá klukkan hálf sex í gær og hófst aftur klukkan sex í morgun. Það má segja að það hafi tekið sér svona tólf tíma svefn.“

Nú er gosið tekið að byggja upp í kraftinn og má vafalítið búast við hviðuvirkni og spýjum í dag. Tvær myndarlegar hraunár renna enn niður í Meradali, ekkert að ráði hefur runnið í Nátthaga að undanförnu.

Salóme segir ekkert benda til þess að nýjar gossprungur opnist en ekki sé hægt að útiloka það. 

„Það virðist ekki vera að gosið sé í þeim fasa lengur, en það er aldrei að vita. En er samt alltaf einhver hætta á að sprungur opnist. Það má ekki gleyma því að svæðið er allt komið undir hraun.“

Salóme segir gasmengun hafa minnkað fljótlega eftir hádegi í gær og ekki mælist mikið gas á höfuðborgarsvæðinu núna. Það fara í austurátt núna en Salóme bendir á að mengunin í gær var ekki beint frá gosstöðvunum heldur eldri gasmökkur.

„Þetta var eldri gosmökkur sem hafði farið fyrir utan land og kom til baka. Það er náttúrulega spurning hvort hann sé búinn hérna fyrir vestan land eða hvort eitthvað er eftir. Meðan vindátt er nokkuð ákveðin og rigning þá eru minni líkur á að fá mengun eins og var í gær.“