Fór á tónleika eftir aðgerð með dren í hliðartösku

Mynd: Art Bitnic / Grapevine

Fór á tónleika eftir aðgerð með dren í hliðartösku

20.07.2021 - 13:35

Höfundar

Ása Dýradóttir bassaleikari í Mammút þurfti að láta fjarlægja æxli í brjósti átján ára gömul. Katrína Mogensen og Alexandra Baldursdóttir, hljómsveitarsystur Ásu og vinkonur, drógu hana á tónleika til að kæta hana og gáfu henni fiskinn Svart sem varð ljóðmælandi í lagi sem hljómar á plötu þeirra Karkari.

Hljómsveitin Mammút sigraði í Músíktilraunum árið 2004 og hefur síðan þá verið ein af helstu rokksveitum landsins. Platan Karkari, sem kom út 2008, naut mikilla vinsælda, ekki síst hér á landi og var sú plata til umfjöllunar í þættinum Geymt en ekki gleymt á Rás 2 á sunnudag. Sveitin hefur alls sent frá sér fimm breiðskífur, Mammút, Karkari, Komdu til mín svarta systir og Kinder Versions. Þær tvær síðastnefndu voru báðar valdar rokkplötur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Svo kom platan Ride The Fire út í fyrra, árið 2020. Nafnið á plötunni Karkari er tekið úr arabísku og þýðir hraðskreitt skip, eða tví- eða þrímastra seglskip. Þær Katrína Mogensen söngkona og Ása Dýradóttir bassaleikari ræddu við Lovísu Rut Kristjánsdóttur um plötuna, túrana, tónlistina og vináttuna. Auk þeirra skipa sveitina Alexandra Baldursdóttir á gítar, Arnar Pétursson á gítar og Valgeir Skorri Vernharðsson sem leysir af Andra Bjart Jakobsson á trommur.

„Viltu vera bassaleikarinn í Mammút?“

Þegar Mammút vann Músíktilraunir var Ása ekki enn byrjuð í hljómsveitinni. Bassaleikarinn sem þá lék með sveitinni heitir Guðrún Heiður Ísaksdóttir en hún hætti 2007. „Ég er enn nýi bassaleikarinn,“ segir Ása sposk fjórtán árum síðar. Hópurinn sem sveitina skipar kynntist að stórum hluta í Laugalækjarskóla en þegar bassaleikarinn hætti voru góð ráð dýr. Þau þekktu Ásu aðeins í gegnum samfélagsmiðilinn Myspace en fannst hún vera töff. Þegar fregnir bárust af því að hún væri bassaleikari gerði Katrína sér ferð í verslunina sem Ása starfaði þá í, Ranimosk á Klapparstíg. „Ég bankaði, settist í stólinn og sagði: Viltu vera bassaleikarinn í Mammút?“ rifjar Katrína upp.  „Ég bara: ó mæ gad já,“ svarar Ása.

Kom í ljós að hún var ekkert bassaleikari

Fyrsta æfingin var aðeins nokkrum dögum síðar og þá fóru að renna tvær grímur á hljómsveitarmeðlæmi. „Við hittumst á æfingu og hún var bara ógeðslega léleg. Ég var bara: Ó skrýtið, ég hélt hún væri bassaleikari,“ segir Katrína. Alexandra Baldursdóttir gítarleikari sannfærði Katrínu um að gefa Ásu séns og sagði að hún væri líklega bara stressuð. En það var ekki bara það. „Svo kom í ljós að hún var ekkert bassaleikari, þetta var bara kjaftasaga sem við höfðum heyrt,“ segir Katrína.

Sveitt á bakinu og maður heldur áfram

Ása gengst við því. „Ég spilaði á píanó og hafði einu sinni spilað á bassa – punktur – með kærustu Arnars þáverandi, því við ákváðum að halda hljómsveitaræfingu. Það hefur bara undið upp á sig,“ segir hún. Þegar hún var beðin um að munda bassann með sveitinni segist hún hafa verið hissa en ákveðið strax að spila með. „Þetta var móment þar sem maður spyr engra spurninga. Bara alveg sveitt á bakinu og maður heldur áfram,“ segir hún.

Svitnar enn í lófunum við tilhugsunina

Það stóð ekki til að finna neinn annan í stað Ásu. Eftir fyrstu æfingar var hún orðin hluti af bandinu hvort sem hún kynni á bassann eða ekki. „Við vorum ekkert mikið að pæla í þessu og vorum heldur ekki mikð að pæla hvernig við spiluðum á hljóðfæri, þetta var svolítið bara svona: Æ, ókei,“ segir Katrína. Stuttu eftir fyrstu æfingu voru tónleikar á Café Amsterdam í Hafnarstræti. „Ég var komin upp á svið viku seinna og mér hefur aldrei liðið eins illa á ævinni,“ segir Ása og hlær. „Þú snerir líka baki alla tónleikana,“ minnir Katrína hana á. „Ég svitna í lófunum bara við tilhugsunina,“ samsinnir Ása.

Mynd með færslu
 Mynd: Saga Sig - Ride the Fire
Vináttan hefur alltaf einkennt samstarf hljómsveitarinnar Mammút

Sömdu á ströndinni og syntu í sjónum

Karkari var samin um sumar í litlum skúr hjá Nauthólsvík. Hljómsveitarmeðlimir voru enn í menntaskóla en vörðu þar öllum helgum, laugardögum og sunnudögum, frá því klukkan níu á morgnana og voru gjarnan timbruð. En þau nutu sín saman að æfa og semja á ströndinni. „Svo vorum við að synda í sjónum og vorum í skúrnum. Þetta var rosalega fallegur tími. Þetta var gott sumar,“ rifjar Ása upp. „Við vorum átján, nítján ára og þetta var rosalega carefree tími,“ tekur Katrína undir. „Það var enginn að bíða eftir plötu frá Mammút, þetta var bara keyrt áfram af gleði og spennu.“

Rúnar Júl hrósaði Ásu fyrir sönginn

Platan er tekin upp í upptökuheimili Rúnars Júlíussonar, Geimsteini í Keflavík. Rúnar bjó sjálfur fyrir ofan og kom gjarnan niður til að tékka á stemningunni. Í eitt skiptið sagði hann við Ásu: „Þið syngið rosalega vel.“ Ása var upp með sér yfir hrósinu þó það beindist ekki að henni, „ég sagði bara takk, en ég var auðvitað bassaleikari.“

Eina sem skipti máli var bensín, sígó og tónleikar

Laglínurnar semur hljómsveitin saman en textana skrifar Katrína. Hún segir að mesta vinnan og kvíðinn fari í textasmíðina. Flest lögin á Karkari eru tileinkuð einhverjum sem Katrína elskar. Hljómsveitin er rokksveit í grunninn en lengi vel gekk illa að staðsetja þau. Ása og Alexandra áttu á tímabili kærasta sem voru í metalböndum og þá var þeim boðið að spila á metalhátíðum. Þar segir Ása að sveitin hafi verið mjög sér á báti. „Við vorum alltaf eins og álfur út úr hól, líka á poppfestivölum,“ segir hún. En þau létu það ekki á sig fá, þau túruðu bæði um Ísland og allan heiminn og nutu þess að koma fram og ferðast á milli staða sem þau gerðu þó þau væru ung og alls ekki fjáð. „Það eina sem skipti mál var bensín, sígó og tónleikar,“ segir Ása. „Það er kominn annar föstudagur og ég á geggjaðan jakka með kögri. Þessi tími var rosa mikið bara út í bíl eftir fjögurra tíma svefn og halda áfram.“ Um alla Evrópu eignuðust þau aðdáendur sem enn fylgja þeim. „Við eignuðumst fanbeis sem við erum enn í sambandi við í dag,“ segir Ása.

„Fallegar sögur um fólkið mitt“

Á Íslandi komu þau líka reglulega fram. „Í minningunni vorum við að spila á Gauknum hverja einustu helgi, og á Organ. Við vorum endalaust mikið að spila,“ segir Katrína. Lögin Svefnsýkt og Rauðilækur fengu mikla spilun hér á landi og sömuleiðis skreið lagið Gun upp vinsældalistana. Það er ort til Gunnu, bestu vinkonu Katrínar. Lagið Dýradóttir er hins vegar óður til Ásu. „Þessi plata, textarnir, eru mikið til fólksins sem ég elska í kringum mig. Fallegar sögur um fólkið mitt,“ segir Katrína.

Á þeim tíma sem Dýradóttir var spilað átti Ása svartan fisk sem stelpurnar í bandinu gáfu henni. „Ása er með ofnæmi fyrir öllum dýrum en hún hugsaði voðalega vel um hann og fannst hann rosalega fallegt lítið gæludýr. Hún var stundum að taka hann upp úr búrinu og klappa honum,“ segir Katrína.

Fór með dren í hliðartösku inn á Nasa

Ása hafði nýverið fengið æxli í brjóstið sem fjarlægja þurfti með aðgerð. Hún segir að þær hafi allar verið svo ungar að þær gerðu sér ekki grein fyrir alvarleika málsins, en stelpurnar hefðu verið rosalega góðar við sig og meðal annars gefið sér fiskinn sem Ása kallaði Svart. „Þær voru líka að draga mig á tónleika rétt eftir aðgerð. Ég fór með dren inn á Nasa í hliðartösku,“ rifjar hún upp. Í laginu er ljóðmælandinn sjálfur fiskurinn Svartur sem syngur til Ásu úr búrinu og liggur líka í lófa hennar. „Hann var algjör lífsins narrator í gegnum súrt og sætt,“ segir Ása um Svart heitinn.

Fengu ung að ferðast um allan heim

Vinsældir Mammút urðu sem fyrr segir afar miklar og þau öll undir tvítugu þegar frægðarsólin reis. Aðspurðar hvort frægðin hafi verið yfirþyrmandi segir Ása: „Ég held það sé alltaf tæpt að fá mikla athygli á þessum aldri og það getur haft annað hvort góðar eða slæmar afleiðingar. En það sem við fengum var bara að ferðast ógeðslega mikið rosalega ung. Það var rosalega gott veganesti að sjá svona mikið svona snemma.“ Katrína tekur í sama streng en segir að hópurinn hafi ekki látið frægðina stíga sér til höfuðs. „Við vorum ekki mikið að velta því fyrir okkur. Ég var ekki að hugsa: Guð við erum orðin svo þekkt, eða að upplifa áreiti,“ segir hún. „Við vorum aldrei þannig band, við vorum ekkert geggjað frægt band,“ semsinnir Ása. En þau skemmtu sér vel. „Þetta var alltaf ógeðslega gaman. Í minningunni var þetta bara: Fulla ferð áfram. Það var bara stemningin,“ segir Katrína.

Eru bestu vinir og hafa alltaf verið

Hljómsveitin elskaði að túra og þau fengu ekki leið á að vera saman. „Einhverjir hafa orðið þreyttir á því en það var svo gaman hjá okkur að þetta varð aldrei svona harka til að reyna að meika það. Við vorum bara að leika okkur,“ segir Katrína. „Stundum hefði maður mátt einbeita sér aðeins meira, við vorum bara að hlæja og hafa gaman.“ Vináttan hefur enda verið afar einkennandi fyrir hljómsveitina. „Við erum bestu vinir og höfum alltaf verið það,“ segir Ása. Stundum hafi óstöðvandi samvera reynt á einhverjar taugar en þau lærðu á hvert annað til að koma í veg fyrir árekstra. „Allir skilja hver annan og hvenær einhver þarf speis. Þetta er bara dans sem við erum rosalega góð í,“ segir Ása. „Það var oft tensjon á milli einhverra,“ skýtur Kata inn í. „Smá grátur og smá vesen,“ viðurkennir Ása. „En það er ekki verið að ýkja þegar það er talað um að það hafi verið vinátta og nánd í þessu bandi,“ segir Katrína.

„Þetta er það sem maður kann inn að beini“

Það er nóg um að vera hjá Mammút á næstunni, meðal annars við að spila á Innipúkanum um verslunarmannahelgina og á Iceland Airwaves í haust. Þau eru spennt fyrir að dusta rykið af hljóðfærunum og þenja raddböndin á ný eftir langt hlé í COVID-faraldri. „Ég fæ martröð um að við sökkum,“ segir Ása sposk. „Ég fæ rosalega blendnar tilfinningar en svo veit ég að ef maður er ekki búinn að spila lengi, þá líður manni X, en svo fer maður að spila og það er eins og maður hafi farið í gegnum heilun og maður lifir á því lengi. Algjör ró og núvitund,“ segir Katrína. „Það er geggjað að vera á sviði.“ Ása tekur heilshugar undir þau orð að lokum. „Það er það eina sem við kunnum að gera. Maður gleymir því að þetta er það sem maður kann inn að beini.“

Hér er hægt að hlýða á viðtalið við Mammút í þættinum Geymt en ekki gleymt í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Að beisla eldinn

Popptónlist

Listin og lífið getur ekki farið á endalausan frest