Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eftir nánari skoðun þótti ekki greinarmunur á hæfni

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Eftir viðtöl við umsækjendur og öflun frekari gagna þótti ekki greinarmunur á þeim tveimur umsækjendum um embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra sem hæfnisnefnd mat hæfastan og næst hæfastan, að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra.

Greint var frá því á vef dómsmálaráðuneytis í gær að ráðherra hefði skipað Birgi Jónasson í embætti lögreglustjóra. Hæfnisnefnd mat hann vel hæfan til að gegn embættinu og næst hæfastan þeirra átta sem sóttu um embættið þegar það var auglýst laust í vor. Samkvæmt mati nefndarinnar stóð Helgi Jensson öðrum umsækjendum framar. 

Áslaug Arna segir hefðbundið verklag að ráða hæfasta umsækjandann. Tekin hafi verið viðtöl við umsækjendur og frekari gagna um þá aflað. Einnig voru tekin viðtöl við umsagnaraðila og yfirmenn. Að þessu loknu hafi það verið mat ráðuneytisins að ekki væri greinarmunur á hæfni Birgis og Helga. 

Helgi, sá sem hæfnisnefndin mat hæfastan, hefur óskað eftir rökstuðningi frá dómsmálaráðuneytinu vegna skipunarinnar.