Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarg lækkar leigu um allt að 35 þúsund

Mynd með færslu
 Mynd: Haraldur Jónasson
Íbúðafélagið Bjarg ætlar lækka leigu stórs hóps leigjenda sinna frá og með 1. september næstkomandi og nemur lækkunin allt að 35.000 kr. á mánuði. Íbúðafélagið er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB.

 

Ný greining hagdeildar HMS á nýjustu gögnum um leigumarkaðinn sýnir að leiga hjá Bjargi verður nú tuttugu prósent ódýrari en leiga á almennum markaði.

Hagstæð langtímafjármögnun forsendan

Ástæða lækkunarinnar er hagstæð ný langtímafjármögnun á lánum félagsins hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hún kemur í kjölfar þess að niðurstaða náðist í ríkisstjórn um framtíðarfyrirkomulag lánveitinga stofnunarinnar til byggingar og kaupa á íbúðum á samfélagslegum forsendum þar sem um er að ræða óhagnaðardrifið húsnæðiskerfi. 
   
Skrifað var undir viljayfirlýsingu um fjármögnunina í dag. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs leigufélags, og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS undirrituðu viljayfirlýsinguna. 

500 íbúðir og annað eins í bígerð

Um tvö ár eru frá því Bjarg íbúðarfélag afhenti fyrstu íbúðina og alls eru íbúðirnar núna um fimm hundruð talsins. Að sögn Björns, framkvæmdastjóra Bjargs, er annað eins í farvatninu og má því gera ráð fyrir að íbúðir félagsins verði orðnar um eitt þúsund innan nokkurra ára.

 

Jón Agnar Ólason