Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilborg leiðir lista Miðflokksins í Reykjavík norður

19.07.2021 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir, lögfræðingur og sáttamiðlari, leiðir lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum í haust.

Kjördæmaráð Miðflokksins í kjördæminu samþykkti nú fyrir stundu tillögur uppstillingarnefndar þess efnis en listinn var samþykktur með 77 prósentum greiddra atkvæða.

Í öðru sæti er Tómas Ellert Tómasson verkfræðingur. Erna Valsdóttir fasteignasali er í því þriðja, Þórarinn Jóhann Kristjánsson, tölvunarfræðingur og kennari í fjórða, Ásta Karen Ágústsdóttir, laganemi og dómritari í fimmta og Sólveig Bjarney Daníelsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri

Flokkurinn hefur einn þingmann í kjördæminu, Ólaf Ísleifsson, sem kosinn var á þing fyrir Flokk fólksins en gekk í raðir Miðflokksins á kjörtímabilinu. Hann sóttist eftir fyrsta sætinu en er ekki á lista.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir var oddviti Miðflokksins í kjördæminu í síðustu kosningum en náði ekki kjöri.

Fyrir mistök var rangt farið með nafn, og röng mynd birt, af oddvita flokksins í upphaflegri útgáfu fréttarinnar. Það hefur nú verið leiðrétt. Fréttastofa biðst velvirðingar á mistökunum.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV