Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðkvæmt fólk og börn vöruð við loftmengun frá gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Veðurstofa Íslands og Reykjavíkurborg hvetja fólk sem viðkvæmt er fyrir loftmengun til að fara varlega og vara við því að ung börn sofi utandyra. Gosmóða liggur yfir höfuðborgarsvæðinu og fréttastofa fékk í morgun fregnir af mengun austan úr Gnúpverjahreppi.

Atvinnubílstjóri tjáði fréttastofu nú skömmu eftir hádegið að blá gosmóða lægi yfir svæðinu frá Ísólfsskála út í Selvog. Hann sagðist aldrei hafa séð þvílíkt áður.

Gildi brennisteinsdíoxíðs og súlfatagna mælast há alla leið upp í Hvalfjörð og vefur Umhverfisstofnunar sýnir talsverða mengun í Hveragerði. Því áréttar Veðurstofan varnaðarorð sín.

Gosmóða hefur einkennandi blágráan lit og verður til þegar brennisteinsdíoxíð, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka fyrir tilstuðlan sólarljóssins. 

Þá myndast agnir sem myndast sem eru meðal annars brennisteinssýra og önnur brennisteinssambönd. Gosmóðan greinist ekki með hefðbundunum mælingum á brennisteinsdíoxíði heldur sést hún sem hækkun í fínasta svifrykinu.

Móðan veldur flensulíkum einkennum

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að móðan valdi sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna.

Börn og þau sem viðkvæm eru í öndunarfærum ættu því að forðast útivist í lengri tíma og láta vera að reyna mikið á sig. Eins geti fólk sem síður er viðkvæmt fyrir fundið fyrir einkennum.

Búist er við að gosmóðan liggi yfir höfuðborgarsvæðinu í dag og á morgun en á miðvikudag eða fimmtudag breytist vindátt og þá hættir gosmóðan að berast yfir svæðið. 

Helstu ráðleggingar

Reykjavíkurborg og Veðurstofan hvetja almenning til að fylgjast með tilkynningum á vef Veðurstofunnar og stöðu mengunar á vef Umhverfisstofnunar

Ný uppfærðan leiðbeiningabækling fyrir almenning um hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum er að finna á vef Landlæknis auk upplýsinga vegna heilsufarslegra áhrifa að völdum loftmengunar.

Aðrar almennar ráðleggingar varðandi loftmengun eru eftirfarandi:

  • Lungna og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
  • Andið sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikill mengun því það dregur úr þeim styrk sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun
  • Lokaðu gluggum og minnkaðu umgengni um útidyr.
  • Hækkaðu hitastigið í húsinu.
  • Loftaðu út um leið og loftgæði batna utandyra.