Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Treður ekki upp fyrr en hún fær sjálfræði

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Treður ekki upp fyrr en hún fær sjálfræði

19.07.2021 - 04:57

Höfundar

Britney Spears ætlar ekki að koma fram á meðan faðir hennar er skipaður lögráðamaður hennar. Hún segir sjálfræðissviptinguna sem hún hefur sætt síðustu þrettán ár hafa gert út af við alla hennar drauma.

Þetta skrifaði Spears í langri færslu á Instagramsíðu sinni í gær. Hún berst nú af öllu afli fyrir því að fá sjálfræði að nýju. Jamie Spears, faðir hennar, fer nú með öll hennar mál, þar á meðal hefur hann fjárráð yfir eignum hennar, sem nema um 60 milljónum bandaríkjadala. Britney Spears réði nýverið nýjan lögfræðing til að fara með hennar mál. Hún sagði á Instagram að hún eigi vonina eftir, og það sé það eina í heiminum sem erfitt sé að gera út af við. Þá sagðist hún óánægð með að heimildamyndir um líf hennar hafi minnt hana á neyðarleg tilvik úr fortíðinni. 

Ein nýlegra heimildamynda um hana, Framing Britney Spears, vakti mikla athygli á forræðismáli hennar og jók verulega við stuðningshóp hennar. Myndin hlaut tvær tilnefningar til Emmyverðlauna í síðustu viku. 

Spears og lögmaður hennar, Mathew Rosengart, hafa enn ekki lagt fram formlega kröfu um að hún fái sjálfræði sitt á ný. Mál hennar heldur áfram fyrir dómi síðla í september. 

Tengdar fréttir

Erlent

Fær að ráða eigin lögfræðing og vill kæra föður sinn

Jafnréttismál

Britney tapar