Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er orðið svolítið skrímsli“

Mynd: Aðsend / Ásgeir Helgi Magnússon

„Þetta er orðið svolítið skrímsli“

19.07.2021 - 13:58

Höfundar

„Þetta verður hægt, það er mantran,“ segir Ásgeir Helgi Magnússon, nýr forseti Hinsegin daga sem haldnir verða hátíðlegir vikuna eftir verslunarmannahelgi. Engan óraði fyrir því að dag einn yrði hátíðin eins stór og hún er í dag og að samfélagið allt tæki þátt í henni.

Frá fyrstu gleðigöngunni í Reykjavík, árið 2000, hafa Hinsegin dagar vaxið og dafnað sem hátið menningar, mannréttinda og margbreytileika. Í ár verða herlegheitin haldin vikuna 3.-8. ágúst og er Ásgeir Helgi Magnússon nýr forseti Hinsegin daga.  

Samfélagið tekur allt þátt 

Enginn sá það fyrir þegar fyrsta gleðigangan var gengin að einn daginn yrðu Hinsegin dagar vikulöng hátíð með viðburðum um alla borg, líkt og hún er orðin í dag. „Þetta er orðið svolítið skrímsi, þessi hátíð,“ segir Ásgeir Helgi Magnússon í viðtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2. „En við höfum ákveðið að leyfa henni að vaxa.“  

Ekki séu einungis viðburðir á vegum Hinsegin daga heldur taki samfélagið allt undir gleðina og margir haldi sína eigin „off-venue“-viðburði. „Dagskráin er ekki bara í okkar höndum, það er samfélagið allt sem stendur að þessari hátíð.“  

Hinsegin á öllum aldri 

Ýmislegt verður í boði vikuna litríku en þemað í ár er: Hinsegin á öllum aldri. Sjaldan hafi aldursbreidd þeirra sem lifa sínu lífi útúr skápnum, í stolti og gleði, verið meiri. „Við erum bæði að fagna því og beina augum að yngri og eldri kynslóðinni,“ segir Ásgeir. Haldnir verða fræðsluviðburðir til að stefna þessum hópum saman. Þá verða þrír einstaklingar á ólíkum aldri í pallborði og segja frá sinni upplifun af því að vera tvítugur hinsegin einstaklingur á Íslandi.  

Einnig verði til umræðu hvernig sé að eldast hinsegin. Til dæmis, hvort samfélagið er tilbúið til að taka á móti hinsegin einstaklingum sem fara á dvalarheimili. „Eru allir innviðir til staðar svo að fólk geti haldið áfram að lifa í stolti og gleði?“  

Þá verður hinsegin götuleikhús þar sem ungmenni á aldrinum 15-18 ára verða með gjörninga alla vikuna og verða svo vel sýnileg í gleðigöngunni sjálfri á laugardeginum.  

„Þetta verður hægt“  

Ásgeir segir að skipuleggjendur hátíðarinnar séu í góðu samstarfi við Almannavarnir og allt líti vel út. „Þetta verður hægt, það er mantran.“ Vegna heimsfaraldursins þarf að fara varlega og því verða ekki jafn margir erlendir skemmtikraftar og tíðkast hefur. Þó komi þrjár bandarískar dragdrottningar og þar á meðal er Lady Bunny sem ætlar baða lýðinn í kómík og dragi.  

Á laugardagskvöldinu verður svo slegið upp Stjórnarballi í Gamla bíói og heyrst hefur að Páll Óskar verði með ball í Iðnó. „Þetta er svo stór hópur að það verður að vera nóg í boði.“  

Hinsegin dagar verða haldnir hátíðlegir vikuna 3.-8. ágúst og er hægt að nálgast dagskrána hér.  

Rætt var við Ásgeir Helga Magnússon í Fram og til baka á Rás 2.  

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Það eru heldur betur að koma jól á laugardaginn“

Kvikmyndir

Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000

Sjónvarp

Hjartað stoppaði og tárin spýttust fram

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki