Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sextán innanlandssmit í gær þar af tíu utan sóttkvíar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Sextán greindust með COVID-19 innanlands í gær, tíu þeirra voru utan sóttkvíar. Þá greindist eitt kórónuveirusmit á landamærunum í gær. Smitrakning stendur yfir en eftir daginn í gær eru 124 í einangrun og 385 í sóttkví.

Ekki liggur fyrir hvert hlutfall bólusettra er meðal hinna smituðu, að svo stöddu, samkvæmt upplýsingum Hjördísar Guðmundsdóttur samskiptastjóra almannavarna. 

Á laugardag var öldruð kona lögð inn á Landspítalann með COVID-tengd veikindi. Hún er sú fyrsta sem þarf að leggjast inn vegna sjúkdómsins um nokkurra vikna skeið.

Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID-göngudeildarinnar, sagði í samtali við fréttastofu í gær að konan væri ekki mikið veik. 

Almannavarnir minna alla, bólusetta sem óbólusetta, á að fara í sýnatöku finni þeir fyrir minnstu einkennum.