Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sammála um að halda áfram þar til samkomulag næst

19.07.2021 - 04:19
epa08661730 A handout photo made available by Afghanistan State Ministry for Peace shows Afghanistan's Peace Negotiation team pray as they leaves Kabul for the opening ceremony of Intra-Afghan Peace Negotiations that are to be held in Doha, Qatar, at Kabul airport, Afghanistan, 11 September 2020. The United States, Taliban and Afghanistan government delegations officially will start the intra-Afghan negotiations on 12 September 2020.  EPA-EFE/AFGHANISTAN STATE MINISTRY FOR PEACE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Afganska sendinefndin baðst fyrir áður en hún hélt til Doha í Katar í dag. Mynd: EPA-EFE - Friðarnefnd afgönsku stjórnar
Samninganefndir afganskra stjórnvalda og Talíbana segjast ætla að hittast aftur til friðarviðræðna, eftir tveggja daga fund um helgina í Doha í Katar. Al Jazeera hefur eftir sameiginlegri yfirlýsingu samninganefndanna að þær skuldbindi sig til að halda viðræðum áfram þar til samkomulag næst. Þær sammæltust einnig um að tryggja mannúðaraðstoð til allra sem á þurfa að halda í landinu.

Leiðtogi Talíbana, Haibatullah Akhundzada, sagði í gærmorgun að hreyfingin vilji eftir fremsta megni ná pólitísku samkomulagi í ríkinu, þrátt fyrir fjölmarga sigra á vígvellinum víða í Afganistan. 

Nefndirnar hafa hist reglulega mánuðum saman í Doha, án þess að nokkur árangur hafi náðst í viðræðunum. Al Jazeera hefur eftir Mutlaq al-Qahtani, sáttasemjara í viðræðum Afgana og Talíbana fyrir hönd Katars, að það litla samkomulag sem hafi náðst sé að reyna að takmarka fall almennra borgara. Þær hafi þó samþykkt að hittast aftur í næstu viku, og skuldbundið sig til þess að halda viðræðum áfram þar til sátt er í höfn.

Bandaríkjaher er á förum frá Afganistan eftir nærri tuttugu ára veru þar. Margir óttast að það reynist afganska hernum um megn að halda aftur af sveitum Talíbana þegar hann stendur einn eftir. Sú staða gæti komið upp að Talíbanar taki völdin í landinu, eða þá að fleiri hreyfingar blandi sér í átökin og borgarastyrjöld verði í ríkinu. Krökkt er af vopnum um allt landið eftir nærri fjögurra áratuga átök.