Öllum takmörkunum aflétt á Englandi

19.07.2021 - 00:32
epa08654354 Travellers wear mask as they enter an underground train station along the busy shopping area of Oxford Street in London, Britain, 08 September 2020. A rise in coronavirus cases is causing covert about a potential second wave in Britain. The UK is now seeing four times as many cases on average as it was in mid July according to media reports. British Health Secretary Matt Hancock has urged young people to stick to physical distancing rules, due to the the rise in the number of coronavirus cases.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Öllum samkomutakmörkunum var aflétt á miðnætti á Englandi, þrátt fyrir úrtölur vísindamanna og stjórnarandstöðunnar. Frá miðnætti máttu næturklúbbar opna dyr sínar að nýju, og fjöldatakmörkunum á öðrum samkomustöðum var aflétt.

Þá var grímuskylda afnumin og reglur um heimavinnu. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bað fólk þó um að hafa varann á og hvatti til bólusetninga. Johnson er sjálfur í sóttkví eftir að hafa setið fund með heilbrigðisráðherranum Sajid Javid fyrir skemmstu. Javid greindist með COVID-19 um helgina. 

Því fer fjarri að faraldurinn sé á niðurleið í Bretlandi um þessar mundir, og því er ákvörðunin verulega umdeild. Til stóð í fyrstu áætlunum stjórnvalda að aflétta öllum takmörkunum 1. júlí, en því var svo frestað þar til nú. Síðustu daga hefur faraldurinn hins vegar færst í aukana, þá sérstaklega svonefnt Delta-afbrigði veirunnar. Yfir 50 þúsund hafa greinst smitaðir á hverjum degi í nokkra daga.

Þó tilfellum fari fjölgandi virðast þau ekki jafn alvarleg og áður í Bretlandi. Færri dauðsföll hafa verið skráð af völdum COVID-19 en í fyrri bylgjum, en AFP fréttastofan segir marga óttast að álagið á heilbrigðiskerfið gæti átt eftir að sliga það. Þá er einnig möguleikinn á því að ný afbrigði veirunnar eigi eftir að myndast. 

Borgaryfirvöld víða á Englandi hafa ákveðið að halda í grímuskyldu í almenningssamgöngum. Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, tók af skarið þegar hann tilkynnti að grímuskylda yrði áfram í gildi í neðanjarðarlestakerfi og strætisvögnum borgarinnar.