Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Of margir barir á kostnað verslana

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels.com
Fjölgun bara og skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur á kostnað verslana er ein ástæða ölvunar og ofbeldis um helgar segir borgarfulltrúi minnihlutans. Fulltrúi meirihlutans segir opnunartímann bundinn aðalskipulagi og verði ekki breytt með skömmum fyrirvara. 

Mjög slæmt ástand í miðbænum um helgar

Borgarfulltrúar meiri- og minnihluta segja fulla ástæðu til að ræða hvernig bregðast skuli við auknu ofbeldi og ölvun í miðbæ Reykjavíkur um helgar eftir að samkomutakmörkunum var aflétt í lok júní.  

Varðstjórar hjá lögreglu og slökkviliði lýstu mjög erfiðu ástandi í miðbæ Reykjavíkur um liðna helgi í fréttum RÚV á sunnudag.  Lögregla hefur óskað eftir umræðu um opnunartíma skemmtistaða, en hann er nú frjáls.  Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í meirihluta borgarstjórnar segir mikilvægt að taka upplýsta umræðu um kosti og galla núverandi fyrirkomulags.

Þurfum að skoða heildarmyndina

„Við þurfum líka að skoða tölur sem við höfum á meðan  á Covidinu stóð" segir Þórdís. „Þá jókst heimilisofbeldi og barnaverndatilkynningum fjölgaði þannig að við þurfum að skoða þetta allt saman heildstætt. Og þegar við gerum það þá þurfum við að gera það í samtali við alla sem koma að þessum málum.

Eins og kýrnar á vorin

Við þurfum að taka þetta samtal yfirvegað og með gögnin með okkur, því að opnunartíminn grundvallast á aðalskipulagi borgarinnar og því verður ekki breytt á einni nóttu. Auðvitað erum við öll búin að vera í Covid í eitt og hálft ár og standa okkur ótrúlega vel.  Kannski erum við dálítið eins og kýrnar þegar þeim er hleypt út á vorin. Við þurfum bara að skoða þetta saman og taka ákvarðanir að yfirveguðu máli og upplýstu" segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Laugavegur og Bankastræti hafa breyst 

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna í minnihluta borgarstjórnar segir að ein rót vandans felist í fjölgun bara og skemmtistaða í miðbænum á kostnað verslunar. 

„Ég held að það sé full ástæða til að skoða hvað hægt sé að gera til að bæta umgengni og hegðun" segir Eyþór.  „Eitt af atriðunum er skipulagið, þ.e.a.s. Laugavegur og Bankastræti hafa þróast úr því að vera verslunargata í það að vera meira pöbbar og barir. Ég hef haft áhyggjur af þeirri þróun.  Ég held að hún sé hluti af því af hverju ástandið er svona. 

Bann leysir ekki vandann

Ég held að bönn leysi nú ekki vandann því þá ýtum við honum bara eitthvert annað eins og þekkt er. En það er eitthvað annað í umgjörðinni sem við getum bætt. Og eitt af því er að hlutfall veitingastaða er orðið mjög hátt miðað við verslun" segir Eyþór Arnalds.