Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýtt minnisblað sóttvarnalæknis komið til ráðherra

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent nýtt minnisblað til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vegna fjölgunar COVID-smita síðustu daga. Ríkisstjórnin kemur saman klukkan 12 á hádegi og ræðir um innihald minnisblaðsins. Sóttvarnalæknir vill ekki gefa mikið upp um innihaldið að öðru leyti en því að hann leggi til að hert verði á reglum á landamærunum.

„Eins og venjulega er ég ekki að ræða um innihaldið í þessum minnisblöðum fyrr en ráðherra og ríkisstjórnin eru búin að fjalla um það. Ég held að ríkisstjórnin muni fjalla um það sennilega í dag og þá sjáum við bara til en þetta er náttúrulega bara á þeim nótum sem ég hef verið að ræða fram að þessu, einkum að reyna að herða aðeins á landamærunum og minnka lekann af smitum inn í landið eins mikið og við getum. Þannig að við reynum að minnka álagið eins og hægt er,“ sagði Þórólfur í viðtali í morgun. 

Veiran farin að dreifa sér víða um landið

Smitum hefur fjölgað síðustu daga og hafa þau verið um fimmtán á dag. Flestir hinna smituðu eru bólusettir. „Veiran er búin að dreifa sér og við sjáum í rakningu að hún er farin að greinast í öðrum landshlutum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.“ Flest hinna smituðu eru með væg einkenni veirunnar, enda flest ungt fólk eða á miðjum aldri, segir Þórólfur. 

Hvatt er til varúðar þar sem viðkvæmir dvelja

Það sé hins vegar áhyggjuefni ef veiran fer að smitast meðal viðkvæmra hópa sem þó eru bólusettir. „Þannig að  við þurfum að hvetja alla, til dæmis á stofnunum eins og við höfum gert fram að þessu undanfarna daga, að hvetja alla á stofnunum, hjúkrunarheimilum til að taka upp varúðarráðstafanir eins og hægt er eins og menn þekkja og kunna.“

Bólusetning við COVID veitir ekki jafn mikla vörn gegn delta-afbrigðinu og öðrum, að sögn Þórólfs. Vörnin sé um 60 prósent gegn öllum smitum og um 90 prósent gegn alvarlegum veikindum. „Við erum að fá vörn en ekki eins mikla og við myndum vilja. Við þurfum að hugsa málið út frá því.“

Spurning hvort herða þurfi innanlands líka 

Sóttvarnalæknir segir að það sé spurning hvort þurfi að herða aðgerðir innanlands. „Það er spurning og hvort eigi að miða við alvarleg veikindi eða ekki og við vitum að alvarleg veikindi koma seinna í faraldrinum þannig að það er alltaf matsatriði hvenær eigi að grípa til slíkra ráða.“

Bíða eftir niðurstöðum rannsókna á gagnsemi þriðju sprautunnar

Hvað með þriðju sprautuna er hún þér ofar í huga nú en áður? „Við þurfum að sjá hvort að það sé líklegt að þriðja sprautan muni vernda betur. Það er ekki víst að hún geri það og við þurfum að sjá niðurstöður rannsókna á því en eins og við höfum getið um áður þá erum við að horfa til þess að bjóða þriðju sprautuna þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og undirliggjandi vandamál og kannski eldra fólki sem að svarar bólusetningunni ekki alveg eins vel. Það er til skoðunar en það er ekki komin endanleg niðurstaða. Við erum líka að horfa til annarra með rannsóknarniðurstöður og við þurfum að styðjast við rannsóknir. Það er ekki bara að taka ákvörðunina, við þurfum að hafa eitthvað á bak við það.“

Vilja fara varlega í að bólusetja ungmenni

Varðandi bólusetningar á yngri en 15 ára segist Þórólfur hafa viljað fara varlega í að bólusetja þann hóp  vegna hugsanlegra aukaverkana. Bólgur í gollurhúsi og hjartavöðva hafi sést. „Þetta er hópur sem veikist ekki alvarlega. Þetta er hópur sem tekur veikina síður en eldra fólk og smitar síður út frá sér. Þannig að við þurfum að gera það að vandlega yfirveguðu ráði ef við ætlum að fara að bólusetja þennan hóp,“ segir sóttvarnalæknir.

Býstu við að vera með fleiri minnisblöð á næstunni? „Það er alltaf von á minnisblöðum frá mér.“