Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grunnlaun hækkuðu um 6,6% að meðaltali árið 2020

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Energepic - Pexels
Grunnlaun á Íslandi hækkuðu um hátt í sjö af hundraði á liðnu ári. Lægstu laun á Íslandi árið 2020 voru í gisti- og veitingarekstri en einnig í meðhöndlun úrgangs, og störfum við vatns- og fráveitur. Hæst voru regluleg mánaðarlaun og heildarlaun hins vegar í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans sem byggir á tölum frá Hagstofu Íslands.

Með reglulegum launum er átt við öll vinnulaun, að frádregnum greiðslum fyrir yfirvinnu. Það innifelur bónusa, vaktaálag og aðrar þær greiðslur sem fylgja dagvinnu. 

Stytting vinnuvikunnar hefur nokkur áhrif á þróun heildarlauna sem hækkuðu um 5,3% milli ára meðan grunnlaun hækkuðu um 6,6%. Launavísitala hækkaði svipað, eða um 6,3 af hundraði.

Að meðaltali fækkaði þeim stundum sem starfsfólk fær greiddar um þrjár á mánuði 2020, helst á almenna vinnumarkaðnum enda tók vinnutímastytting hjá hinu opinbera ekki gildi fyrr en á þessu ári. 

Allar launahækkanir á árinu 2020 voru krónutöluhækkanir en hækkunin var langmest í gisti- og veitingahúsarekstri, 12 til 13 prósent. Minnst var hækkunin í fjármála- og vátryggingarstarfsemi ásamt verslun og viðgerðum.

Kórónuveirufaraldurinn leiddi af sér breytingu meðallauna fyrir ákveðin störf við það að launafólk færðist í hlutastarf um nokkra hríð vegna hlutabótaleiðarinnar.

Starfsfólki fækkaði að jafnaði meira í lægra launuðum störfum, á borð við ferðaþjónustu, sem verður til að reiknað meðaltal launa hækkar árið 2020. 

Menntunarstig er hátt í fjármálageiranum en tveir af hverjum þremur starfsmönnum eru sérfræðingar af ýmsu tagi meðan helmingur starfsfólks við gistingu og veitingasölu sinnir ræstingum og afgreiðslu. 

Regluleg mánaðarlaun árið 2020 voru að meðaltali 670 þúsund krónur en heildarlaun 794 þúsund en sá munur skýrist einkum vegna yfirvinnu.