Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erlendir ferðamenn skila sér aftur í hvalaskoðun

19.07.2021 - 22:55
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Þó aðsókn í hvalaskoðun á Norðurlandi hafi aukist jafnt og þétt undanfarnar vikur, vantar enn talsvert upp á að hún jafnist á við það sem var fyrir faraldurinn. Á Húsavík binda menn vonir við góðar bókanir í ágúst og september.

Sárafáar bókanir voru í hvalaskoðun í byrjun sumars og því byrjuðu fyrirtækin bæði hægar og seinna en áður, en síðustu vikur hafa verið góðar. 

,,Búinn að vera góður stígandi"

,,Eigum við ekki að segja að það sé búinn að vera góður stígandi," segir Stefán Guðmundsson, eigandi Gentle Giants á Húsavík. ,,Þetta byrjaði ekki með neinum látum og bókunarfyrirvarinn að styttast vegna ástandsins." Undir þetta tekur Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar. ,,Við höfum fengið frábært veður hér á Húsavík og Húsavík bara iðað af miklu mannlífi. Og við höfum fengið að njóta þess líka."

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Erlendir ferðamenn í miklum meirihluta

Fyrirtæki í hvalaskoðun þurftu að draga verulega úr allri starfsemi í faraldrinum og hafa farið varlega af stað - ráðið færra fólk til starfa og fara enn sem komið er færri ferðir en áður. Farþegarnir eru engu að síður ánægðir og segja ferðirnar frábærar. Sumir eru að sjá hvali í fyrsta sinn á ævinni. Erlendir ferðamenn eru í miklum meirihluta í hvalaskoðun á Húsavík. ,,Þetta er svona að stærstum hluta Bandaríkjamenn, en svo hafa Evrópubúar líka verið að aukast undanfarið," segir Stefán Jón.

Segjast vongóðir með framhaldið

Og forsvarsmenn hvalaskoðunar fyrirtækjanna eru vongóðir með framhaldið ef ekki kemur frekara bakslag. ,,Þá höfum við miklar væntingar til þess að ágúst verði jafnvel ennþá betri og september gæti komið sterkur af því að það eru margar þjóðir ennþá sem eiga eftir að fara í ferðalög," segir Stefán Guðmundsson.