Aron Can – Andi, líf, hjarta, sál

Mynd: Anna Maggý / ANDI, LÍF, HJARTA, SÁL

Aron Can – Andi, líf, hjarta, sál

19.07.2021 - 15:30

Höfundar

Aron Can er enginn nýgræðingur í bransanum. Hann var 16 ára þegar hann gaf út fyrstu plötuna sína, Þekkir stráginn, og lagið Enginn mórall sló heldur betur í gegn. Síðan komu plöturnar Í nótt 2017 og Trúpíter 2018 en fyrir hana var hann tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir rappplötu ársins og rapplag ársins. Nú sendir hann frá sér sína fjórðu plötu á fimm árum Andi, líf, hjarta, sál, sem inniheldur smellinn Flýg upp.

Plata Arons Can, Andi, líf, hjarta, sál, kom út föstudaginn 25. júní og á henni eru 13 lög. Platan var tvö ár í smíðum, sem er óvenjulegt fyrir Aron Can, en hann vill meina að það hafi orðið til þess að hann kafaði aðeins dýpra í sjálfið. Covid tafði að sjálfsögðu ferlið en platan var nánast tilbúin þegar það skall á. Vegna rólegheita við tónleikahald ákvað Aron að eyða meiri tíma í sköpunina sem ber hans nafn.

Tónlistarfólkið og söngvararnir GDRN, Birnir og norska stórstjarnan Unge Ferrari eru gestir Arons Can á plötunni. Hann fékk einnig lagasmiðina Þormóð Eiríksson, Arnar Inga, Magnús Jóhann og Jón Bjarna til liðs við sig en þeir hafa samið mörg vinsæl lög á síðustu árum.

Andi, líf, hjarta, sál er plata vikunnar að þessu sinni á Rás 2 og verður spiluð ásamt kynningum Arons Can á lögunum í heild sinni eftir tíufréttir auk þess að vera aðgengileg í spilara.