Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áhrif erfðaefnis móður meiri en talið var

Mynd með færslu
 Mynd: Íslensk erfðagreining
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa kortlagt 243 erfðabreytileika sem tengjast fæðingarþyngd, annars vegar í erfðamengi fósturs og hins vegar móður.

Niðurstöðurnar voru birtar í vefútgáfu vísindaritsins Nature Genetics í dag, en höfundar hennar eru Þórhildur Júlíusdóttir og Valgerður Steinþórsdóttir.

Rannsóknin varpar nýju ljósi á tengsl fósturvaxtar við meðgönguháþrýsting og meðgöngusykursýki.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að niðurstaðan sýni að áhrif erfðaefnis móður á barn takmarkist ekki við þann helming erfðaefnis sem barnið erfir frá móðurinni. Sá helmingur sem ekki erfist hafi einnig áhrif.

Erfðabreytileikar sem fylgja hækkun á blóðþrýstingi reyndust tengjast minni  fæðingarþyngd ef þeir eru í erfðamengi fósturs, en engin tengsl fundust þegar þeir voru í erfðamengi móður.

Skiptir máli hvort erfðabreytingin er hjá móður eða fóstri

Tengsl fæðingarþyngdar og sjúkdóma hafa lengi verið þekkt, en deilt hefur verið um hversu mikið þau tengjast erfðaþáttum einstaklingsins sjálfs og að hversu miklu leyti má rekja þau til aðstæðna fósturs á meðgöngu og þar með erfðaþáttum móður.

Niðurstöðurnar sýna að erfðabreytileikar sem auka líkur á sykursýki hafi áhrif en þau áhrif eru andstæð, eftir því hvort erfðabreytileikarnir koma fram í genum móður eða fósturs. Séu þeir eru í móðurinni tengjast þeir meiri fæðingarþyngd en ef þeir eru í fóstrinu tengjast þeir minni fæðingarþyngd.

Í rannsókninni voru arfgerðir, þ.e. genasamsetning, skoðaðar hjá rúmlega 400 þúsund börnum, 270 þúsund mæðrum og 60 þúsund feðrum. Skoðuð voru tengsl arfgerða við fæðingarþyngd, fæðingarlengd og líkamsþyngdarstuðul.

Valgerður Steinþórsdóttir, líffræðingur og annar höfunda, segir að þar sem helmingur erfðamengis fósturs kemur frá móður hafi reynst erfitt að greina milli erfðabreytileika móður og fósturs.

„Í þessari rannsókn hefur okkur í fyrsta sinn tekist að aðgreina þessi áhrif og skoða hvor í sínu lagi. Það gefur nýja innsýn í þá þætti sem hafa áhrif á fósturvöxt og tengsl þeirra við sjúkdóma,“ segir Valgerður.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV