Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir fjórar milljónir hafa dáið úr COVID-19 í heiminum

18.07.2021 - 11:30
epa09345184 Health workers in action at Ariele Apartments in Maribyrnong, north-west of Melbourne, Australia, 15 July 2021. Local health authorities informed residents at the apartment complex that their quarentine period will be extended as new COVID-19 cases were discovered at the site.  EPA-EFE/LUIS ASCUI AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Fjöldi látinna af völdum COVID-19 á heimsvísu er nú kominn yfir fjórar milljónir manna, samkvæmt gögnum sem AFP fréttastofan hefur safnað saman.

Alls létust 7.253 úr sjúkdómnum í heiminum síðasta sólarhring og rúmlega 463 þúsund ný smit staðfest. Flest dauðsföllin voru skráð í Indónesíu, þar sem 1.093 létust, Brasilíu þar sem 868 dóu og í Rússlandi þar sem skráð dauðsföll voru 764.

Frá því að faraldurinn braust út í desember 2019 eru staðfest smit í heiminum nú hátt í 190 milljónir. Mikill meirihluti þeirra sem hafa smitast hafa náð sér en einhverjir þeirra hafa þurft að glíma við eftirköst veikinda sinna í vikur eða mánuði til viðbótar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að bæði fjöldi smita og dauðsfalla kunni að vera tvöfalt eða þrefalt meiri en opinberar tölur gefa til kynna. Þrátt fyrir víðtækar skimanir víðast hvar þá skili þau sér síður í skimun sem hafi væg eða engin einkenni kórónuveirusmits. 

Bandaríkin eru enn það ríki heims sem hefur verst farið út úr faraldrinum. Þar hafa 608.898 látið lífið og 34.069.082 greinst með smit.