Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öldruð kona lögð inn á Landspítala með COVID-veikindi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - Rúv
Öldruð kona var lögð inn á Landspítalann í gær með COVID-tengd veikindi. Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID-göngudeildarinnar, segir innlögnina tengjast slappleika og vökvaskorti og konan sé ekki mikið veik. Þetta sé þó eitthvað sem sé viðbúið að geti gerst. Hann segir að af þeim 110 sem nú eru í einangrun séu sárafáir að glíma við einhver alvarleg einkenni.

Undanfarna daga hafa nokkuð margir greinst með innanlandssmit og flestir hafa verið utan sóttkvíar.  Níu greindust í gær og voru þeir allir utan sóttkvíar. Sóttvarnalæknir hefur boðað minnisblað um hertar aðgerðir á landamærunum.  

Aukið álag hefur verið á COVID-göngudeildina sem hefur í faraldrinum notast við litakóðunarkerfi; þeir sem eru einkennalausir eru „grænir“, þeir sem þurfa á eftirliti að halda eru „gulir“ og „rauðir“ eru þeir sem gætu þurft að leggjast inn.

Runólfur segir að af þeim 110 sem séu nú í einangrun séu langflestir „grænir“ og aðeins örfáir „gulir“.

Hann segir stöðuna allt aðra en í fyrri faröldrum enda séu langflestir Íslendingar, 16 ára og eldri, fullbólusettir og þótt bóluefnin verji fólk ekki algjörlega fyrir smiti komi þau í langflestum tilfellum í veg fyrir alvarleg veikind.

visir.is greindi fyrst frá innlögninni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV