Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hi sexy“ voru skilaboðin sem sendu Angjelin af stað

18.07.2021 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gæsluvarðhaldsúrskurðirnir sem birtust á vef Landsréttar í vikunni í tengslum við morðið á Armando Beqiri í Rauðagerði sýna vel hvað gerðist dagana fyrir og eftir ódæðið. Sakborningar gerðu lögreglu erfitt fyrir og breyttu framburði sínum ítrekað í yfirheyrslu en smám saman tókst henni að raða brotunum saman.

Rannsókn lögreglu á morðinu er ein sú umfangsmesta í Íslandssögunni og um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings. Fjórir hafa verið ákærðir fyrir morðið, einn hefur játað sök en hinir þrír neita allir.

Fram kom í frétt RÚV í gær að lögreglan taldi fyrst að Íslendingur, sem hefur verið sagður umsvifamikill í undirheimum Íslands, hefði komið að morðinu.  

Funduðu um hugsanleg vandræði Íslendingsins

Í gæsluvarðhaldsúrskurðum kemur fram að Íslendingurinn væri talinn hafa flutt hingað til lands erlenda menn sem áttu að vera nokkurs konar lífverðir. Vitni sem lögregla ræddi við skömmu eftir morðið sögðu hann hafa óttast að Armando Beqiri hafi ætlað að vinna honum mein gegn greiðslu.

Viku fyrir morðið var til að mynda haldinn fundur þar sem rætt var um hvort Íslendingurinn væri í „vandræðum.“  Hann er ekki meðal þeirra fjögurra sem eru ákærðir og lögmaður hans hefur lýst því yfir að hann ætli að sækja bætur vegna framgöngu lögreglu.

Lögreglan komst fljótlega á snoðir um að Angjelin Sterkhaj, sem hefur játað að hafa skotið Armando til bana, væri viðriðinn morðið. 

Fóru norður í land tveimur dögum fyrir morðið  

Raunar sýna úrskurðirnir að aðeins tveimur dögum eftir ódæðið hafði lögreglan góða mynd af því hvað gerðist í Rauðagerði.

Í yfirheyrslum yfir sakborningum kom fram að Angjelin fór tveimur dögum fyrir morðið norður í Skagafjörð ásamt Íslendingnum, fjölskyldu hans og meintum lífvörðum. 

Angjelin gisti ásamt öðrum í sumarhúsi en Íslendingurinn og fjölskylda hans hjá vinafólki . Fyrr um daginn hafði Angjelin rifist heiftarlega við Armando og hótað að „fylla maga hans af byssukúlum“  þegar þeir hittust næst.

Í einum af fyrstu gæsluvarðhaldsúrskurðunum kemur fram að lögreglu gekk illa að finna út hvar sumarhúsið væri því enginn sakborningur vildi gefa það upp. Það var ekki fyrr en upplýsingar bárust frá eiganda þess að lögregla gat farið þangað í húsleit og fengið upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Lét sakborninga hafa tösku með byssu í

Daginn eftir eða á föstudeginum fór Angjelin einn síns liðs að hitta tvo aðra sakborninga í málinu; Claudiu Sofiu Coelho Carvalho og  Shpetim Qerimi. Þau eru meðal þeirra fjögurra sem hafa verið ákærð. Qerimi er sá sem keyrði Angjelin í Rauðagerði á laugardagskvöldinu en Claudia er talin hafa fylgst með ferðum Armando fyrr um kvöldið. Ekki kemur fram hvar þau hittust en það virðist hafa verið á miðri leið.

Á þessum stutta fundi lét Angjelin þau hafa svarta tösku og sagði Claudia í yfirheyrslum að miðað við þyngdina hefði líklega verið byssa í töskunni.  Angjelin fór síðan aftur upp í bústaðinn í Skagafirði.  Hann neitaði því í yfirheyrslum að hafa látið þau hafa tösku.

Á laugardeginum fór hann aftur til Reykjavíkur. 

Claudia viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði verið beðin um að fylgjast með ferðum Armando um kvöldið . Og í nokkrum úrskurðum kemur fram að þegar Angjelin fékk frá henni skilaboðin „hi sexy“ hafi hann beðið Qerimi um að leggja af stað í Rauðagerði. „Förum núna,“ á hann að hafa sagt. 

Fundu skotfæri á heimili konunnar

Í gæsluvarðhaldsúrskurðum kemur fram að við húsleit á heimili Claudiu hafi fundist skotfæri sem voru sömu tegundar og notuð voru í morðinu. Hún sagðist hafa fengið þau í desember og viðkomandi hafi ætlað að sækja þau eftir þrjá daga. Angjelin sagðist í yfirheyrslu hafa látið hana hafa 300 stykki af 22 cal byssukúlum sem hún hefði átt að henda.

Í þeim úrskurðum sem birtir voru á vef Landsréttar sést að Angjelin breytti framburði sínum ítrekað í yfirheyrslum. Hann hélt því statt og stöðugt fram  að hann hefði ekki farið í Rauðagerði á laugardagskvöldinu.  Hann og Qerimi hefðu keyrt norður í Skagafjörð á laugardagskvöldinu og verið komnir þangað milli 1 og 2 um nóttina.

Lögreglan reyndist hins vegar vera með gögn sem sýndu að hann var ekki kominn norður fyrr en klukkan 3 eða þremur tímum eftir að hann skaut Armando til bana.