Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flækjustig hjá Miðflokknum við uppstillingar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Á morgun og á miðvikudaginn verður kosið um uppstillingarlista hjá Miðflokknum í Reykjavíkurkjördæmi norður og í Suðurkjördæmi. Tveir Miðflokksþingmenn sem áður voru í Flokki fólksins bætast við í oddvitabaráttunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður vill ekki skipta sér af uppstillingum.

Júlí er vanalega ekki sá mánuður þar sem kosið er um framboðslista. Nú horfir öðru vísi við því alþingiskosningar verða í september. 

Kosið um oddvita um helgina

Ekki var búist við að listi uppstillingarnefndar í Reykjavík suður yrði felldur á kjördæmafélagsfundi síðasta fimmtudag. Það varð þó raunin. Þorsteini Sæmundssyni núverandi oddvita var hafnað á þeim lista. Stjórn kjördæmafélagsins ætlar því að láta kjósa um oddvita 23. og 24. júlí. Ætla má að Þorsteinn bjóði sig fram og líka sú sem efst var á uppstillingarlistanum, Fjóla Hrund Björnsdóttir framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins. 

Listinn í Reykjavík norður ákveðinn á morgun

Til tíðinda dregur líka í tveimur öðrum kjördæmafélögum Miðflokksins í vikunni. Annað kvöld verður listi uppstillingarnefndar í Reykjavík norður kynntur. Ólafur Ísleifsson alþingismaður leiddi lista Flokks fólksins í þessum kjördæmi fyrir síðustu kosningar en er nú í Miðflokknum. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir var oddviti Miðflokksins í þessu kjördæmi síðast. 

Birgir og Karl Gauti voru oddvitar síðast

Á miðvikudaginn verður listi Miðflokksins í Suðurkjördæmi lagður fram. Þar er svipað flækjustig og í Reykjavík norður. Birgir Þórarinsson alþingismaður leiddi lista Miðflokksins í síðustu kosningum. Þingmaðurinn Karl Gauti Hjaltason gekk úr Flokki fólksins í Miðflokkinn á síðasta kjörtímabili og sækist hann eftir því að leiða lista í Suðurkjördæmi. Karl Gauti er hins vegar ekki á lista uppstillingarnefndar að því er fram kemur á mbl.is.

Formaðurinn heldur sig til hlés

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir í svari við fyrirspurn Fréttastofu að hann hafi einsett sér að skipta sér ekki af uppstillingum. Það sé kjördæmafélaganna að ákveða það.