Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Átta ákærð fyrir að svindla á Ábyrgðasjóði launa

18.07.2021 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðssaksóknari hefur ákært átta, sjö karla og eina konu, fyrir umfangsmikil svik úr Ábyrgðasjóði launa eftir gjaldþrot nokkurra fyrirtækja. Svikin er sögð nema um 17 milljónum. Móðir manns, sem virðist hafa verið býsna stórtækur, og tveir synir hans eru meðal þeirra sem eru ákærð í málinu.

Málið hefur verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara um nokkurt skeið.

Það kom upp hjá Ábyrgðarsjóði launa fyrir fimm árum og nær aftur til ársins 2009. Hlutur hvers og eins sakbornings er mismikill. Ákæra saksóknara er nokkuð ítarleg og löng þar sem hvert brot er rakið í smáatriðum.

Samkvæmt ákæru saksóknara virðast svikin hafa farið þannig fram að Ábyrgðasjóður launa var blekktur til að halda að viðkomandi hefði verið starfsmaður á ákveðnu tímabili hjá fyrirtæki sem hafði verið lýst gjaldþrota. Stundum var bara einn að verki, stundum voru þeir fleiri.

Búnir voru til ráðningarsamningar og launaseðlar og þessum upplýsingum komið til stéttarfélaga sem fyrir hönd þeirra lýsti kröfu í Ábyrgðarsjóð launa.   

Í einu málinu vekur athygli að sakborningur er sagður hafa blekkt bróður sinn til að taka við peningum sem Ábyrgðasjóður launa hafði lagt inn á reikning lögmannsstofu. 

Það er hann sagður hafa gert með því að segja bróður sínum að hann ætti von á greiðslu frá lögmannsstofunni vegna slyss en gæti ekki tekið við peningum þar sem hann stæði í gjaldþrotamáli.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næsta mánuði.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV