„Þessi útskriftarferð breytti lífi mínu“

Mynd: Edda Sigfúsdóttir / Aðsend

„Þessi útskriftarferð breytti lífi mínu“

17.07.2021 - 11:00

Höfundar

Þegar Edda Sigfúsdóttir fór með vinkonum sínum í Versló í útskriftarferð til Magaluf, grunaði hana síst að líf hennar yrði aldrei samt í kjölfarið. Á norrænum bar dansaði hún við Eurovisionlög við sætan danskan strák sem reyndist vera ástin í lífi hennar.

Edda Sigfúsdóttir og Stephen Nielsen kynntust í skítugri, sveittri og sólbrunninni útskriftarferð á Magaluf á Spáni árið 2009. Stephen er handboltamaður, sem meðal annars hefur spilað fyrir íslenska landsliðið, en var á þeim tíma búsettur í Svíþjóð. Hann var staddur á sólarströndinni með liðsfélögum sínum en Edda var þar í útskriftarferð með vinum sínum úr Versló. Dögunum var að mestu varið í sólbað en á kvöldin voru vinkonur Eddu mjög spenntar fyrir að kynnast sætum strákum. Þeim fannst þær heppnar þegar þær fréttu að skammt frá væri staddur hópur af handboltamönnum en Eddu þótti þreytandi að þær skyldu vilja eltast við þá og vera á sömu börum. „Ég nennti ekki að vera að eltast við einhverja handboltastráka,“ segir Edda. Hún og Stephen sögðu frá kynnum sínum í Ástarsögum á Rás 1.

Leist illa á kvöldið eftir að fugl skeit á höfuð hennar

Þær héldu til á bar sem nefnist Den Glade Viking þar sem Stephen var staddur. „Þetta var svona ömurlegur staður sem við duttum inn á hvert kvöld á ákveðnum tímapunkti,“ segir Stephen. Fyrr um daginn hafði fugl skitið á höfuð Eddu, sem henni fannst alveg hræðilegt og gat ekki hugsað sér að fara út að skemmta sér með drit í hárinu. Hún lét það þó samt ekki stoppa sig. „Það er kannski áhugavert því maður hefur heyrt að það sé fyrir lukku.“

Þetta var síðasta kvöld Stephens og félaga á ferðalaginu og strákarnir höfðu fengið veður af því að íslenskar stúdínur væru í grenndinni. „Nokkrir strákar voru mjög spenntir að finna þær,“ rifjar Stephen upp. „Það hafði ekki tekist fram að þessu kvöldi sem var síðasta kvöldið okkar, svo það var kannski bara heppni.“

Kysstust áður en þau vissu nöfn hvor annars

Á staðinn mættu stelpurnar og leikin voru Eurovisionlög á dansgólfinu. Í miðri sveiflu rekur Edda augun í Stephen og þau dansa saman. „Allt í einu erum við tvö að dansa svolítið mikið saman, skemmta okkur við að brosa og hlæja, dansa á asnalegan hátt og hafa gaman,“ segir Edda. „Maður var bara í góðu skapi og það var mjög sæt kona hérna, ég var ekki að pæla of mikið á þessum tímapunkti. Bara hafa gaman og njóta kvöldsins.“

Þau kysstust áður en þau vissu hvað hvort annað héti. „Það voru svo mikil læti að maður heyrði það ekki almennilega,“ segir Edda og hlær. Þau yfirgáfu staðinn saman og áttu í löngum samræðum. „Ég held það hafi einkennt okkar samband alltaf að eiga góðar og skemmtilegar samræður, og fara í djúpar pælingar og deila skoðunum.“ Þau skiptust á skoðunum, voru ekki sammála um allt en gátu rætt þær á málefnalegan og skemmtilegan hátt. Edda sat í kjöltu Stephens og hafði miklar áhyggjur af því að honum þætti hún of þung, að það væri erfitt fyrir sig að hafa hana í fanginu svona lengi. „Ég þurfti að endurtaka að minnsta kosti tíu sinnum í gegnum kvöldið: Nei, þú ert ekki að kremja mig, nei ég er ekki að deyja hérna. Það er allt í góðu lagi,“ segir Stephen sposkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Edda Sigfúsdóttir - Aðsend
Edda og Stephen eru hjón og líka bestu vinir

Héldu áfram að spjalla þrátt fyrir fjarlægðina

Þau fóru í göngu sem endaði með því að Stephen fylgdi Eddu á hótelið hennar, þau kvöddust og hann gekk fimm kílómetra upp bratta hæð á hótelið sitt. Þangað var hann ekki kominn fyrr en um átta um morguninn og fór beint í flugið. „Það var langur dagur daginn eftir,“ segir Stephen. „Ég hugsaði eftir þetta að þrátt fyrir að það hefði byrjað með fuglaskít á höfðinu hefði þetta verið mjög skemmtileg ferð,“ segir Edda.

Daginn eftir byrjuðu þau strax að spjalla saman á MSN, Stephen þá kominn til Svíþjóðar þar sem hann bjó en Edda enn á Magaluf. „Ég man hvað ég þurfti að gera til að komast í tölvuna, það var að logga mig inn í anddyrinu á hótelinu og eiga samtal í tölvunni fyrir framan alla sem löbbuðu framhjá. Ég lagði það alveg á mig.“

Reyndi að slíta samskiptunum

Viku síðar hélt Edda heim en samtölin héldu áfram. Þau héldu áfram að vera djúp og innihaldsrík en tilfinningarnar fóru að láta á sér kræla og Eddu fannst erfitt að finna þær því frekari þróun á sambandinu var nánast óhugsandi þar sem þau bjuggu í sitt hvoru landinu. Edda reyndi að slíta samskiptunum. „Ég ræddi það við hann að hann skyldi ekki endilega segja frá hvernig samtölin hefðu verið um sumarið, því ég hafði ekki verið alveg nógu kurteis,“ segir Edda kímin en Stephen hlær. „Ég var of upptekin af því að það hefði verið þessi fjarlægð á milli og við gætum ekki verið að eyða okkar tíma í þessi spjöll. Ég held að það hafi snúist um að setja upp einhvern ákveðinn varnarvegg því samtölin voru svo góð, og það var leiðinlegt að finna tengingu þegar maður heldur að það sé ekki til neins.“

Stephen man þennan viðsnúning í samskiptum þeirra vel. „Þetta er mjög falleg leið til að segja að þú sagðir: Hættu að tala við mig. Þú býrð í öðru landi og þetta mun aldrei ganga, hættu þessu,“ segir hann.

Neistinn var enn til staðar

Tæpu hálfu ári síðar sat Edda á bar með vinkonum sínum og þær voru að tala við stráka og skemmta sér, en Edda hugsaði heim því hún vonaði að Stephen væri á Skype og hún gæti spjallað við hann. „Fyrir mig var þetta ákveðið móment sem ég áttaði mig á að þetta væri eitthvað meira en skemmtileg samtöl. Að þetta væri eitthvað sem ég vildi skoða nánar,“ segir Edda sem dreif sig heim og opnaði Skype í tölvunni, þar sem Stephen var. „Fyrir mig var þetta tímapunktur þar sem þetta komst á næsta stig.“

Ákveðið var að Edda kæmi í heimsókn til Stephens til að kynnast betur. Þau voru bæði spennt en líka kvíðin fyrir því að kynni þeirra yrðu öðruvísi þegar þau væru loksins á sama stað. „Hann yrði að velja góðan tíma til að kyssa mig. Ég var búin að setja kröfur um það sem hann fylgdi eftir,“ segir Edda. Hún sagði vinkonum sínum að hún væri að fara til Svíþjóðar að heimsækja mann sem hún hefði hitt bara einu sinni og urðu þær mjög hissa. „Ég veit ekki hvert þær ætluðu.“ Edda fór samt af stað. Stephen sótti hana á Kastrup og þau tóku lest í tvo og hálfan tíma til Svíþjóðar. „Ég var stressaður og spenntur á sama tíma. Maður var stressaður fyrir þessu sem maður var búinn að byggja upp, hvernig myndi það vera þegar við værum saman. Það var ákveðið fiðrildi í maganum á góðan og neikvæðan hátt,“ segir Stephen. Um leið og þau hittust aftur fundu þau samt straumana. „Neistinn var til staðar og mér leið eins og ég hefði þekkt hann í mörg mörg ár,“ segir Edda.

Lífið hefði ekki getað breyst á betri hátt

Edda hitti fjölskyldu Stephens, æfði takmarkaða dönskukunnáttu sína og þau kolféllu fyrir henni. Afi Stephens sendi honum SMS þegar Edda var að fara aftur til Íslands og sagði: „Þetta var frábær stelpa, ekki klúðra þessu.“

Stephen klúðraði engu. Mánuði síðar var hún komin aftur í heimsókn og hélt upp á afmæli Stephens með honum. Aðeins mánuði síðar var hún flutt til Svíþjóðar til hans þar sem parið dvaldi í þrjú ár. 2014 giftu þau sig og í dag eiga þau yndislegan sex ára son. „Við erum að njóta lífsins saman og njótum þess að eiga okkar góðu samtöl áfram, og við njótum félagsskapar hvor annars,“ segir Edda. „Mér finnst það yndislegt og sé ekki líf mitt fyrir mér taka betri breytingu,“ samsinnir Stephen.

„Kynntist ástinni í lífi mínu“

Aldrei hefði Eddu grunað að þessi ferð yrði jafn örlagarík. „Þessi útskriftarferð breytti lífi mínu. Ég hugsa til þessarar útskriftarferðar og mér líður vel því þetta er það sem stendur upp úr. Þegar ég hugsa um þessa ferð er það eiginlega fyrst og fremst það að ég hafi kynnst ástinni í lífi mínu.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Eddu og Stephen í Ástarsögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var miklu týndara en ég er núna“

Menningarefni

„Erfitt að skilja hvers vegna hún púkkaði upp á mig“