Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sex dagar í Ólympíuleikana - Flo Jo stingur allar af

Mynd með færslu
 Mynd: IOC

Sex dagar í Ólympíuleikana - Flo Jo stingur allar af

17.07.2021 - 13:16
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó á föstudaginn kemur. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag rifjum við afrek Florence Griffith-Joyner á leikunum í Seoul í Suður-Kóreu árið 1988.

Florence Griffith fæddist í Los Angeles í desember 1959 og var ein ellefu systkina. Hún vakti snemma athygli fyrir spretthörku sína en þótti þó ekki meðal þeirra allra bestu.

Í háskóla tók hún hins vegar stórstígum framförum undir stjórn hins goðsagnakennda þjálfara Bob Kersee. Háskóalið hennar var það besta í Bandaríkjunum. Hún náði þó ekki að landa sæti í Ólympíuliði Bandaríkjanna fyrir leikana í Moskvu 1980. Það breytti þó litlu þar sem Bandaríkin hættu við þátttöku í leikunum það ár.

Florence tryggði sér svo sæti í Ólympíusveit Bandaríkjanna fyrir leikana í Los Angeles 1984, hennar heimaborg. Hún hljóp 200 metra og náði í silfur.

Eftir leikana dróg hún verulega úr æfingum og keppni. Hún hóf störf í banka og skreytti neglur og hár, en skrautlegar hárgreiðslur og langar neglur urðu síðar einkennismerki hennar.

1987 setti hún hins vegar aukinn kraft í æfingar að nýju. Þá hafði hún gengið að eiga Al Joyner, Ólympíumeistara í þrístökki, og bar nú eftirnafnið Griffith-Joyner. Hún náði í silfur í 200 metra hlaupi á HM 1987 í Róm. Tímar hennar fóru ört batnandi næsta árið og en var þó samt ekki nærri tímum þeirra albestu.

Það breyttist á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana 1988. Þar hljóp hún 100 metrana á 10,49 og rústaði heimsmetinu. Á úrtökumótinu náði hún þremur bestu tímum í 100 metra hlaupi kvenna frá upphafi. Hún setti svo líka nýtt bandarískt met í 200 metra hlaupi.

Ólympíuleikarnir 1988

Flo Jo var því skiljanlega talinn sigurstranglegust allra þegar kom á leikunum í Seoul 1988. Hún sagði skilið við Bob Kersee og eiginmaður hennar þjálfaði hana í kjölfarið. 

Flo Jo vann 100 metrana á 10,54 sekúndum sem var, og er enn, Ólympíumet. Í 200 metrunum vann hún með yfirburðum á 21,34 og setti heimsmet sem stendur enn. Bandaríska sveitin rúllaði svo upp 4x100 metra boðhlaupinu að auki. Flo Jo hljóp líka í 4x400 metra hlaupi en þar fékk liðið silfur á eftir Sovétríkjunum sem settu heimsmet.

Þrjú gull og eitt silfur var uppskeran í Seoul og hafði aðeins Fanny Blankers-Koen unnið fleiri verðlaun í frjálsíþróttum á einum leikum. 

Florence Griffith-Joyner hætti svo keppni í frjálsum skömmu eftir áramótin 1989. Hún var þá orðin súperstjarna, sérstaklega í Bandaríkjunum. Hún rakaði inn peningum með samstarfssamningum og sneri sér í auknum mæli að hönnun og tísku. Hún hannaði meðal annars búninga NBA-liðs Indiana Pacers fyrir veturinn 1989.

Umdeild met

Ótrúlegar bætingar Flo Jo í aðdraganda leikanna 1988 vöktu strax furðu. Hún bætti tíma sinn í 100 metra hlaupi um tæplega hálfa sekúndu á einu ári og grunaði fólk að hún væri með óhreint mjöl í pokahorninu. Fyrrum liðsfélagi hennar sagðist hafa selt henni stera fyrir Ólympíuleikana, en gat ekki sýnt fram á sannanir þess. 

Það vakti svo líka athygli að hún hætti keppni á hátindi ferilsins, rétt áður en reglur um tilviljanakennd lyfjapróf tóku gildi. Hún féll þó aldrei á lyfjaprófi á ferli sínum.

Heimsmet hennar í 100 metrum verður líklega ekki slegið alveg í bráð. Metið var sett í talsverðum meðvindi en vindmælir mótsins bilaði. Opinber vindur voru 0,0 m/s en síðari rannsóknir meta vindinn á bilinu 5-7 m/s, sem myndi vera ólöglegur vindur. Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur þó ekki ógilt metið, en viðurkennir að það hafi verið of mikill vindur. Flo Jo ætti metið hvort eð er, þar sem hún á þrjá bestu tíma sögunnar.

Florence Griffith-Joyner lést í svefni á heimili sínu í september 1998, 38 ára að aldri. Dánarorsök hennar var skyndilegt og heiftarlegt flogakast.