Norsk leikkona skyggði á stjörnur frönsku Ríveríunnar

epa09351053 Renate Reinsve poses during a Award Winners Photocall with the award for 'Best Actress' for 'Verdens Verste Menneske' at the 74th annual Cannes Film Festival in Cannes, France, 17 July 2021.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Norsk leikkona skyggði á stjörnur frönsku Ríveríunnar

17.07.2021 - 19:57

Höfundar

Norska leikkonan Renate Reinsve var í kvöld valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir leik sinn í kvikmyndinni Verdens verste menneske eftir Joachim Trier. Þótt varla sé þverfótað fyrir kvikmyndastjörnum á frönsku ríveríunni ber sérfræðingum saman um að hin 33 ára gamla leikkona hafi skyggt á þær allar.

Franska kvikmyndin Titane eftir Juliu Ducournau hlaut hin eftirsótta gullpálma og er það í fyrsta skipti síðan 1993 að kona vinnur þessu verðlaun. Síðast var það Jane Campion fyrir The Piano.

Spike Lee, sem var formaður dómnefndar, voru heldur mislagðar hendur. Hann tilkynnti um sigurvegarann strax í upphafi verðlaunahátíðarinnar en ekki hvaða leikarar hefðu verið valdir bestir eins og hefð er fyrir. Og þegar loks var komið að stóru stundinni urðu honum á þau mistök að tilkynna sigurvegarann aftur í stað þess að segja hver myndi afhenda þau. „Kvöldið er fullkomið af þíví að það er ófullkomið,“ sagði leikstjórinn.

Engu að síður beindust allra augu að hinni norsku Reinsve. 

„Hin 33 ára gamla leikkona sem hafði varla fengið aðalhlutverk hlaut að vera farin að velta því fyrir sér hvort hún hefði kannski átt að hlusta á foreldra sína,“ segir AFP í frétt sinni um leikkonuna.

Áður en Verdens verste menneska var frumsýnd á Cannes hafði leikkonan aðeins birst á hvíta tjaldinu í eina mínútu og það var fyrir tíu árum.

Svo skemmtilega vill til að þetta litla hlutverk fyrir tíu árum var í kvikmyndinni „Oslo, 31 ágúst“ eftir áðurnefndan Joachim Trier.

Hann segist í samtali við AFP ekki hafa getað hætt að hugsa um leikkonuna eftir að þau eyddu níu dögum til að undirbúa sig fyrir þessa einu mínútu. „Ég skil ekki af hverju norsk kvikmyndagerð er í það miklu rugli að ekki fundust nein hlutverk handa henni,“ segir Trier

Kvikmyndin Verdens verste menneske var skrifuð sérstaklega með leikkonuna í huga. Sjálf reynir hún að halda sér á jörðinni þrátt fyrir mikla athygli og hló þegar blaðamaður Guardian líkti henni við sænsku leikkonuna Aliciu Vikander og ensku leikkonuna Lily James. „Engin hefur séð mig leika í neinu.“

Gagnrýnendur voru á einu máli um frammistöðu Reinsve,  stjarna væri fædd.  „Þetta var pínu yfirþyrmandi. Um daginn vaknaði ég og ældi og í morgun fór ég að gráta upp úr þurru.“ Fram kemur á vef NRK að tilboð streymi nú frá Hollywood. „Ef maður ætti að líkja þessu við íþrótt væri þetta heimsmeistaratitill,“ segir Abid Raja, menningarmálaráðherra Noregis í samtali við NRK.