Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neysla áfengis og fíkniefna eykst í Covid

17.07.2021 - 12:18
epa07149788 A glass of wine sits on a table during a wine and spirits competition in Tbilisi, Georgia 07 November 2018 (issued 08 November 2018). Wine is one of the top Georgian export products.  EPA-EFE/ZURAB KURTSIKIDZE
 Mynd: EPA - RÚV
Aldrei hafa fleiri dáið úr ofneyslu eiturlyfja í Bandaríkjunum en í fyrra og dauðsföllum vegna sjúkdóma tengdum ofneyslu áfengis fjölgaði um tuttugu prósent í Bretlandi á síðasta ári miðað við árið þar á undan.

Árið 2020 var ár kórónuveirunnar. Einangrun og áhyggjur hafa verið fylgifiskur kórónuveirufaraldursins hjá mörgum. Þó það skýri ekki allt, er þessi staðreynd þó nefnd sem hluti af ástæðu þess að dauðsföllum vegna neyslu áfengis og fíkniefna fjölgaði umtalsvert í Bretlandi og Bandaríkjunum í fyrra miðað við árið þar á undan. 

Aldrei hafa fleiri látist vegna ofneyslu eiturlyfja og lyfseðilsskyldra lyfja í Bandaríkjunum en í fyrra. Alls létust 93331 af þessum orsökum í fyrra, en það er næstum 30% fleiri en létust vegna ofneyslu árið þar á undan. Mest var aukningin í dauðsföllum vegna ofneyslu fentanyls.

Sérfræðingar segja þessa miklu aukningu mega bæði rekja til andlegra og félagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins, en einnig til þess að eiturlyfjasalar blanda í auknum mæli sterkum lyfseðilsskyldum lyfjum við önnur eiturlyf. 

Í fyrra létust að meðaltali 250 Bandaríkjamenn á dag úr ofneyslu eiturlyfja, eða um 11 á hverri klukkustund. 

Í Bretlandi jókst drykkja áfengis umtalsvert í fyrra, þó svo að öldurhús hafi oft á tíðum verið lokuð vegna faraldursins. Dauðsföllum vegna sjúkdóma tengdum ofneyslu áfengis fjölgaði um 20% árið 2020 miðað við árið á undan. Til samanburðar má nefna að dauðsföllum af þessum orsökum fjölgaði um 3% milli 2018 og 2019. 

Sölutölur stórmarkaða segja sömu sögu, en um 25% aukning var á sölu áfengis í verslunum í Bretlandi í fyrra miðað við árið á undan. 

Rosanna O’Connor, hjá lýðheilsustofnun Bretlands, sagði í viðtali við Guardian að hluti af bataferli samfélagsins eftir kórónuveirufaraldurinn hlytu að verða tilraunir til að snúa þessari þróun við.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV