Listamenn sækist í gleði úr sorg

Mynd: - / Bríet

Listamenn sækist í gleði úr sorg

17.07.2021 - 16:10

Höfundar

„Þetta er einhvers konar dóp sem þú sækist í aftur og aftur,“ segir tónlistarkonan Bríet. Hún ræðir gleðina, samband sitt við tónlist og þær tilfinningar sem hún getur vakið.

Tónlistarkonan Bríet á farsælan feril að baki þrátt fyrir ungan aldur. Til að mynda var hljómplata hennar Kveðja, Bríet valin plata ársins á íslensku tónlistarverðlaunum 2021, þá var Bríet einnig valin textahöfundur og söngkona ársins.  

Þessa dagana heldur Bríet uppteknum hætti með því að ferðast um landið, spila á tónleikum og fá að sjá loksins framan í fólk. Að sögn hefur hún litla pásu fengið því mikið hafi verið að gera hjá tónlistarkonunni á tímum heimsfaraldurs. „Það er smá stressandi að allt sé að byrja aftur,“ segir Bríet í viðtali við Tómas Ævar Kjartansson og Melkorku Gunborgu Briansdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hún sér ekki fram á að fá eitthvað frí fyrr en um jólin. 

Mjólkar sorgina til að fá sælu  

Tónlist er gjarnan þeim eiginleikum gædd að geta vakið upp ýmsar tilfinningar hlustenda. Bríet er einmitt hrifin af lögum sem virðast hress en fjalla í raun um eitthvað alveg hræðilegt. „Gleðin er svo margvísleg,“ segir söngkonan og líkir tilfinningunni við sorg. „Þetta er ekki alveg sami hluturinn en þetta eru sömu sterku tilfinningarnar sem eru alveg hlið við hlið.“ Hún veltir því fyrir sér hvort orðið sé ekki bara mengi utan um allar hinu góðu tilfinningarnar á borð við hamingju, sátt, ró og sælu.  

„Þetta lag er um sorg og umræðuefnið er þungt, en þetta vekur upp sælu og gleði,“ segir Bríet um lagið On Melancholy Hill úr smiðju Gorillaz, því gleði og sorg sé í raun sama súpan. „Maður upplifir svo oft að vera að syngja um eitthvað sorglegt en líða rosalega vel.“ Þetta sé eitthvað sem listafólk sækist gjarnan í, að grafa upp sorgina í einhvers konar sælu. „Ég hef oft gripið sjálfa mig þar, að mjólka einhverja tilfinningu sem er mikil sorg í til að fá einhvers konar sælu.“  

„Þetta er einhvers konar dóp sem þú sækist í aftur og aftur,“ segir Bríet og finnst áhugavert hvernig þessar tilfinningar tala saman. „Þetta er eitthvað dark efni sem þú vilt halda þig frá en færð einhverja sælu frá.“ Hún nefnir þó að þannig finni hún sátt og uppgjör, það sé svo mikilvægt að takast á við harminn því allt of oft forðist fólk hann. „Geturðu raunverulega verið glaður ef þú ferð aldrei í sorgina?“  

Harmur hvetur til skemmtunar 

Hennar eigin lög eru gjarnan tregafull og sorgleg en fólk á það til að öskursyngja með þeim og dansa við. Nefnir hún þar lagið sitt Esjan, sem hún syngi bæði í brúðkaupum og jarðarförum. „Það er biluð stemmning að dansa við þessi lög en þau eru frekar sorgleg.“ 

Þetta sé einmitt það sem hafi heillað söngkonuna við kántrítónlist, en þar er oft erfiðum tilfinningum blandað saman við hressa tóna. Þegar hún kynntist slíkri tónlist fyrst áttaði hún sig ekki á sjarmanum því að sögn er poppkántrí mjög leiðinleg tónlist. Fyrrverandi kærasti hennar kynnti margvísleg kántrílög fyrir henni og núna sækist hún mikið í slíka tónlist, fegurðin sé oft fólgin í eldri lögunum.  

„Þegar maður hlustar á lög myndast mjög mikið af minningum,“ segir Bríet en hún tengir bílinn sinn við slík augnablik sem veita henni gleði. Hún rúnti mikið um og keyri út á land þar sem hún hlustar á tónlist. „Það eru margar fallegar minningar sem hafa myndast inni í þessum bíl,“ segir hún. Bíllinn sé 88’ árgerð af Bronco og bili því oft úti í vegkanti þar sem hún getur lítið annað gert en að kveikja á kasettu og bíða eftir aðstoð. Hún keyri mikið út fyrir borgina og þá helst á Þingvelli eða að Hafravatni. „Þetta er sjúklega stutt og þú ert kominn í algjöra sælu.“ 

„Ég er algjör glápari“  

Áttu þér einhverja litla gleði sem þú leitar uppi? „Já, ég held að allir eiga sér eitthvað og á mismunandi hátt,“ segir Bríet. „Mín gleði getur verið að fylgjast með fólki á kaffihúsi.“ Hún eigi það til að glápa á fólk sem geti verið erfitt fyrst hún er þekktur einstaklingur, fólk fylgist oft með henni en hún megi ekki horfa til baka. Hún sé oft djúpt hugsi að fylgjast með fólki og óttast stundum að hún virki dómhörð. Svo sé ekki raunin, „þú ert að veita mér gleði, þess vegna er ég að fylgjast með þessu“. 

Bríet mun troða upp á Þjóðhátíð og verða það hennar fyrstu kynni af hátíðinni. Hún segist til í að mæta og halda skemmtilega tónleika en hún veltir fyrir sér hvort fólk verði ekki of drukkið til þess að heyra hvað hún er að spila. „Það heyrist sjaldan af gleðinni og fegurðinni frá fólkinu sem þangað dregst.“ Einnig verður hún með tvenna tónleika í Hörpu í september, annars vegar Nýklassík og hins vegar útgáfutónleika fyrir plötuna sína Kveðja, Bríet.  

Rætt var við Bríeti Ísisi Elfar í Tengivagninum á Rás 1. Hlýða má á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Bríet sveif um í mögnuðu atriði á tónlistarverðlaununum

Tónlist

„Sefur þú nú sætt og rótt, sveipuð í rökkri og yl“

Tónlist

Fyrrverandi kærastinn hefur ekki tjáð sig um plötuna

Tónlist

Bríet hefði mátt vera orðljótari við kúrekann