Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Annasöm nótt hjá lögreglu vegna slagsmála

17.07.2021 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og einkum undir morgun. Slagsmál brutust nokkrum sinnum út fyrir utan skemmtistaði og mikið var um hávaðakvartanir í miðborginni. Jafnframt voru skráð tvö slys sem rekja má til skemmtanalífsins. Í öðru tilvikinu datt einstaklingur innandyra á skemmtistað en í hinu fyrir utan skemmtistað í miðborginni.

Þónokkrar tilkynningar bárust um ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna en lögreglu var jafnframt gert viðvart um bakpoka í óskilamunum á skemmtistað. Bakpokinn hafði að geyma hnífa og leifar af fíkniefnum og var haldlagður af lögreglu. 

Þá var tilkynnt um aðila í miðborginni með hamar. Hamarinn var einnig haldlagður af lögreglu.