Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 200 farþegar Viking Sky fóru í land á Djúpavogi

Mynd með færslu
Viking Sky í höfn á Seyðisfirði Mynd: Seyðisfjarðarhöfn - Kristján Kristjánsson
Rannsókn stendur enn yfir á hugsanlegu broti á sóttvarnareglum þegar farþegar úr skemmtiferðaskipinu Viking Sky fóru í land á Djúpavogi í gær. Kórónuveirusmit hafði áður verið staðfest hjá einum farþega skipsins.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Austurlandi, segist vænta þess að málinu ljúki eftir skýrslutöku á morgun. Málið tengist einungis atvikum á Djúpavogi en þar hafi um 200 farþegar farið frá borði. Rannsóknin beinist að stjórnanda skipsins.

Viking Jupiter á leið til Seyðisfjarðar

Eins og greint var frá fyrr í dag var kórónuveirusmit staðfest hjá farþega um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Jupiter, sem nú er nýfarið frá Akureyri. Þar eru ríflega 900 manns um borð. Næsti viðkomustaður þess er Seyðisfjörður og Kristján Ólafur segir um hefðbundið eftirlit að ræða þar. Sóttvarnayfirvöld hafi verið með málefni þess skips í skoðum, um tíu manns séu í einangrum og sóttkví um borð, en aðrir megi fara frá borði eins og málum sé háttað á þessari stundu.