Segir stjórnarskrárferlið hafa endað í lögleysu

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Breytingarregla stjórnarskrárinnar, 79. grein hennar, er landfesti lýðræðis á Íslandi enda tryggir hún að stjórnarskránni verði ekki breytt nema að vel athuguðu máli. Þetta segir Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur.

Kristrún skrifaði nýverið grein í tímarit lögfræðinga þar sem hún lýsir ferlinu í kringum stjórnlagaráð og gerir alvarlegar athugasemdir við tilraunir til breytinga. Kristrún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.

Stjórnlagaráð var skipað árið 2011 eftir að Hæstiréttur hafði ógilt kosningar á tæknilegu atriði. Kristrún segir hlutverk ráðsins hafa verið illa skilgreint og því aldrei ætlað að endurskoða stjórnarskrána frá grunni líkt og gert var.

„Þegar framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings mistókst var viðbragðið hins vegar gjörólíkt sem leiddi stjórnarskrármálið í farveg lögleysu með sniðgöngu breytingarreglunnar,”segir meðal annars í greininni.

Ráðið skilaði tillögum sínum sumarið 2011 og var í kjölfarið efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem sex spurningar voru bornar undir kjósendur. Sú fyrsta og veigamesta var hvort kjósendur vildu að „tillögur stjórnlagaráðs [yrðu] lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“. Tæp 67 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já.

Kristrún segir spurninguna hafa verið loðna og niðurstöðuna því ekki færa um að leiða málið til lykta.

„Stjórnlagaráð skilar ákveðnum texta, en honum er síðan breytt í þinginu og hópi ráðgefandi lögfræðinga. Þegar atkvæðagreiðslan fer fram liggur enginn endanlegur texti fyrir,“ segir Kristrún og vísar til dæmis til þess að sjötíu breytingar, misþýðingarmiklar, hafi verið gerðar á upphaflegum tillögum ráðsins í meðförum þingsins eftir að atkvæðagreiðslan var haldin.

Feneyjarnefndin, ráðgjafanefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál, var Alþingi innan handar við þá vinnu, og gerði ýmsar athugasemdir við tillögur ráðsins.

Nefndin var aftur kölluð til í fyrra vegna frumvarps Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni – frumvarp sem ekki náði fram að ganga. Í áliti sínu tekur nefndin ekki afstöðu til þess hvort betra sé að fara þá leið að gera afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni á tveimur kjörtímabilum eða að taka í notkun glænýja stjórnarskrá.

Segir nefndin hins vegar að Alþingi þurfi að gefa þjóðinni „sannfærandi skýringar“ á því hvers vegna vikið er frá tillögum stjórnlagaráðs.

Undir það tekur Kristrún. „Ég er að segja það sama við þingmenn og þessi grein er mitt framlag til þess,“ segir Kristrún. Hún segist hafa áhyggjur af fjölda ungs fólks sem telji samfélagið gjörspillt vegna þess að ný stjórnarskrá hafi ekki hlotið brautargengi.