Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri en 1.000 saknað eftir fordæmalaus hamfaraflóð

16.07.2021 - 19:23
Mynd: EPA-EFE / EPA
Fleiri en 100 eru látin í Þýskalandi og minnst 20 í Belgíu vegna hamfaraflóða sem herjað hafa á meginland Evrópu. Eyðileggingin er gríðarleg, björgunarstarf er torvelt á sumum svæðum og yfir þúsund manns er saknað.

Gríðarleg úrhellisrigning olli því að ár flæddu yfir bakka sína, aðallega í vesturhluta Evrópu. Þýskaland hefur orðið einna verst úti. Yfir 100ð eru látin í sambandsríkjunum Rínarlandi-Pfalz og Norður Rín Vestfalíu og óttast er að enn sé um 1.300 manns saknað. Eyðileggingin er gríðarleg, í myndskeiðinu hér að ofan má sjá hvernig er umhorfs í Erfstadt sem dregur nafn sitt af ánni Erft sem rennur í gegnum bæinn. Heilu húsin hafa hrunið og herinn hefur verið kallaður til þar sem björgunarstörf hafa gengið erfiðlega. 

Eiga sér engin fordæmi

Í nágrannaríkinu Belgíu hafa minnst 20 fundist látin eftir flóðin og fjölda enn saknað. Þar er eyðileggingin engu minni en í Þýskalandi. „Við bíðum enn eftir endanlegum tölum en þessi flóð gætu verið þau skæðustu sem orðið hafa í landinu okkar. Þessar aðstæður eru einstakar og eiga sér engin fordæmi hérlendis,“ segir Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu. 

Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir flóðin enn eitt merki þess að það þurfi að gera betur í baráttunni við hamfarahlýnun. „En það eru ekki bara flóðin því á sama tíma ríður löng hitabylgja yfir Skandinavíu. Sem dæmi má nefna að í Kouvola Anjala, sem er í S-Finnlandi, hefur hitinn ekki farið undir 25 gráður í 27 daga. Þetta er í Finnlandi, ekki á Spáni eða í Norður-Afríku. Þetta er Finnland,“ sagði Clare Nullis, talskona Alþjóðaverðurfræðistofnunarinnar, á fundi með fréttamönnum fyrr í dag.