Fiskvinnsla opnuð aftur í Hrísey

16.07.2021 - 11:42
Mynd: Ólafur Göran Gros Ólafsson / Rúv
Uppbygging fiskvinnslu í Hrísey er langt komin eftir stórbruna sem varð þar í fyrravor. Eigendur fiskvinnslunnar segja að það hafi verið þeim mikilvægt að koma vinnslu aftur af stað í eynni.

Aftur komin á vinnsla

Telma Róbertsdóttir, eigandi Hrísey Seafood segir starfsemina í eynni komna vel á veg. Hún gleðst yfir að komið sé vinnsluleyfi á nýtt hús fyrirtækisins í eynni og að þau geti aftur unnið úr aflanum sem landað er þar. 

Í maí í fyrra brann fiskvinnsluhúsið í Hrísey til kaldra kola. Það var þungt högg fyrir íbúa eyjunnar því þetta var stærsti vinnustaður hennar. Nú er hins vegar aftur byrjað að vinna fisk í Hrísey en í öðru húsnæði.

Telma og maður hennar Sigurður Jóelsson festu kaup í fiskvinnslunni í Hrísey í lok árs 2019. Eftir brunann í fyrra ákváðu eigendurnir að byggja vinnsluna upp að nýju. Þau festu kaup á húsnæði Byggðastofnunar og hafa unnið að því að standsetja húsið fyrir vinnslu.

„Það er búið að klára húsnæðið mestallt að innan, það eru öll leyfi komin og fólkið er farið að mæta aftur til starfa, það gengur út á það, það þarf eitthvað að fara að gerast,“ segir Telma.

Starfsemin með breyttu sniði 

Þegar mest var störfuðu nær tuttugu manns við vinnsluna. Þessa dagana segir Telma að það séu 7 í vinnslunni og að þau séu með þrjá báta og þar er 20 manna áhöfn. 

Skömmu fyrir brunann höfðu hjónin fjárfest í vinnsluvélum og kæligeymslum. Það eyðilagðist allt í brunanum. Starfsemin í Hrísey er því með örlitlu öðru sniði en hún var fyrir brunann. „Við eru núna að vinna með ferskan afla en áður vorum við að vinna með frosinn. Þannig að bátarnir landa hér inn og flökin eru hér unnin og svo fer þetta til okkar í Hafnarfirði því að við erum með aðra vinnslu þar,“ segir Telma. 

Telma segir ljóst að starfsemin er mikilvæg fyrir íbúana og samfélagið allt og að þau stefni að því að auka starfsemina frekar. „Já, stefnan er að reyna að tvöfalda fjölda starfsfólks. Við byrjum þetta smátt og smátt og svo bara vonandi nær þetta stækka og blessast,“ segir Telma.