Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dregur úr kvikumagninu segir Magnús Tumi - enginn órói

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn gosórói hefur mælst í eldgosinu á Reykjanesskaga síðan í gærmorgun. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðiprófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir að nú verði að bíða og sjá með framhaldið. Hann áætlar að hraunrennslið síðan á laugardag hafi numið 10 rúmmetrum á sekúndu. Hins vegar hafi dregið úr hraunkviku sem upp komi í júlí miðað við maí og júní. 

Klukkan fimm í gærmorgun hætti að mælast gosórói.  Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur ekkert hraun sést renna á yfirborðinu en þó megi ætla að það renni í lokuðum hraunrásum. 

„Gosið liggur niðri og nú svo verður bara tíminn að leiða í ljós hvort að það tekur sig upp aftur eins og það er búið að gera nokkrum sinnum núna. Það verður bara að koma í ljós. Við vitum bara ekkert hvort að þetta sé endirinn eða hvort það heldur áfram. Og miðað við söguna að þá er hitt alveg eins líklegt að það haldi eitthvað áfram,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson.

Það kom síðast hlé í fimm daga og aðfararnótt laugardags þá byrjaði nú mikill kraftur, það er ekkert hægt að lesa út úr því til þess að spá í framtíðina?

„Nei, ekki nema að þessi hrina sem kom þarna milli 10. og 15. júlí, við höfum lagt svona gróft mat á hvað kom mikið upp í því með því að nota vefmyndavélar, myndavélar almannavarna og merki sem við eigum þarna í Meradölum. Og það er svona gróft mat að þetta hafi verið svona tíu rúmmetrar á sekúndu sem að var að koma á þessu tímabili. Og það er ekkert ósvipað því sem var lengst af í maí og júní. En yfir síðustu tvær, þrjár vikurnar, þetta tímabil sem þetta hefur verið svona skrykkjótt að þá er svona að meðaltali, vegna þess að þá koma þessi hlé þar sem lítið gerist, að þá er meðaltalið kannski nær fimm til sex rúmmetrum svona helmingur af því sem að var lengst af í maí og júní. Þannig að það hefur vissulega í heildina dregið úr magni kviku sem er að koma upp að neðan.“

Magnús Tumi segir að svo til allt hraunið hafa runnið niður í Meradali síðan á laugardag og mest vestast í dalina næst gígnum. Síðast var farið í mælingaflug 26. júní. Stefnt er að því að reyna að fljúga um helgina. Veður og önnur verkefni flugvélarinnar ráða því.