Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dómur getur haft áhrif á kjör allra ríkisstarfsmanna

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Mál flugvirkja sem krefjast launa fyrir ferðalög til útlanda getur haft fordæmisgildi fyrir alla opinbera starfsmenn sem þurfa að ferðast vegna vinnu.

Þetta segir formaður Flugvirkjafélagsins. EFTA-dómstóllinn skilaði í gær áliti í málinu þar sem tekið er undir sjónarmið flugvirkjanna.

Flugvirkjafélagið höfðaði fyrir tveimur árum mál á hendur íslenska ríkinu vegna launagreiðslna flugvirkja hjá Samgöngustofu. Flugvirkjarnir ferðast mikið vegna vinnu en fá aðeins greidd laun fyrir þá vinnu sem unnin er á áfangastað.

Flugvirkjar hjá einkafyrirtækjum fá hins vegar greitt fyrir þau ferðalög sem farin eru vegna vinnu. 

„Þeir geta lent í því að vera sendir erlendis á sunnudegi og ferðast í einn til tvo sólarhringa á verkstað og vinna þar dagvinnu, og fara síðan í annað eins ferðalag heim. Meðan á þessu stendur geta þeir verið í ferðalagi á öllum stundum sólarhrings en fá ekki fyrir það greitt,“ segir Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélagsins.

Ekki krafist launa fyrir hvíldartíma

Guðmundur segir að ekki sé krafist launa fyrir allan þann tíma sem varið er erlendis. Aðeins ferðatíma og annars sem nauðsynlegt er vegna vinnu

„Við förum fram á það að það séu greiddar vinnustundir meðan á ferðalaginu stendur. Ef það kemur hvíldartími inn í ferðalagið, til dæmis hótelsetur þá er það ekki greitt.“

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en að kröfu flugvirkja var óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Álitið birtist í gær og er þar tekið undir sjónarmið flugvirkja. 

Sambærileg mál hafa komið upp í öðrum Evrópulöndum, til dæmis í Noregi, en málið er það fyrsta á Íslandi og Guðmundur segir það hafa fordæmisgildi fyrir alla opinbera starfsmenn.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV