Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Býst við hertum aðgerðum á landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir stöðuna í dag svipaða og hún hefur verið síðustu daga. Ljóst sé á smitrakningu að veirusmit séu farin að dreifa sér nokkuð víða. Hann minnir á að fullbólusettir geti eftir sem áður smitast og veikst alvarlega.

Beðið er eftir niðurstöðum úr raðgreiningu til að sjá hvort um sömu afbrigði af veirunni er að ræða. Enn er full ástæða til að hafa áhyggjur af veirunni.

Brýnt að stemma stigu við innflæði veirunnar

Þórólfur segir að þó ekki sé búið að rekja sýkingu sem kom upp á skemmtistað í höfuðborginni til landamæranna beint, þá blasi við að hún hafi komið inn í landið í gegnum landamærin því um nýtt afbrigði af veirunni sé að ræða. Í ljósi þess býst hann jafnvel við að herða þurfi ráðstafanir á landamærunum.

„Ég held að það sé brýnt að reyna að stemma stigu við þessu flæði veirunnar inn í landið. Það eru nokkrar leiðir til þess sem eru ekki of íþyngjandi fyrir ferðamenn en þó alltaf eitthvað. Það er bara í vinnslu.“ 

Útilokar ekki hertar aðgerðir innanlands

Aðspurður segist Þórólfur ekki hafa skilað inn minnisblaði að þessu lútandi til heilbrigðisráðherra enn þá. Hvað hertar aðgerðir innanlands útilokar hann ekki hertar aðgerðir ef staðan gagnvart kórónuveirunni gerist tvísýnni hér á landi. Hann segir það ekki forgangsverkefni að svo stöddu. „En það kemur auðvitað til greina ef við förum að sjá meiri uppsveiflu, ég tala nú ekki um ef við förum að sjá smit hjá viðkvæmum einstaklingum með alvarlegum afleiðingum. Þá er það ekki spurning.“

Fullbólusettir ekki úr allri hættu

Eftir því sem fleiri landsmenn eru fullbólusettir fara áhyggjur landsmanna af farsóttini minnkandi og hafa ekki mælst minni frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Þórólfur varar þó við ótímabærri bjartsýni hvað þetta varðar. Fullbólusettir geti sannarlega lent illa í kórónuveirunni.
„Fullbólusett fólk getur smitast, fullbólusett fólk getur smitað aðra, og fullbólusett fólk getur veikst alvarlega,“ sagði Þórólfur.