Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yrki arkitektar hanna nýtt ráðhús á Akureyri

15.07.2021 - 14:58
Mynd: Akuryeyrarbær / Akureyrarbær
Yrki-artitektar ehf. urðu hlutskarpastir í samkeppni um hönnun á breytingum á ráðhúsi Akureyrarbæjar. Til stendur að byggja við ráðhúsið auk þess að gera breytingar á núverandi húsi og lóð. Markmiðið er að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað.

Alls bárust 14 umsóknir um þátttöku í forvali sem Akureyrarbær auglýsti í vor. Í kjölfarið var fjórum arkitektastofum boðin þátttaka í samkeppni um hönnun á stækkun og breytingum ráðhússins; A2F arkitektum, Studio 4A, Studio Granda og Yrki arkitektum.

Tillaga Yrki arkitekta hlaut fyrstu verðlaun

Allar fjórar tillögurnar sem bárust voru metnar og fékk hver og einn keppandi greiddar tvær milljónir króna fyrir þátttökuna. Auk þess er aukalega greidd ein og hálf milljón fyrir vinningstillöguna, en tillaga Yrki arkitekta hlaut fyrstu verðlaun.

Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær

Sannfærandi og svari flestum úrlausnarefnum

„Dómnefnd er sammála um að innsendar tillögur hafi verið frumlegar og sýnt fram á fjölbreytta nálgun á frekari stækkun á Ráðhúsi Akureyrar. Tillögur sýndu fram á ólíka nálgun á frekari þróun húsnæðis á lóðinni og hlutverki garðsins í samhengi við núverandi umhverfi og byggð,“ segir meðal annars í áliti dómnefndarinnar. „Að mati dómnefndar var engin tillaga sem leysti að fullu öll þau úrlausnarefni sem koma fram í keppnislýsingu og áhersluatriðum dómnefndar. Sú tillaga sem dómnefnd kom sér saman um að veita 1. verðlaun er sannfærandi og svarar að mestu þeim úrlausnarefnum sem gefin voru.“

Gert ráð fyrir viðbyggingu norðan við ráðhúsið

„Samkvæmt þessari vinningstillögu er gert ráð fyrir viðbyggingu norðan við húsið,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri og formaður dómnefndar. „Og síðan endurgerð á fjórðu hæð ráðhússins og að endurbæta aðstöðu á annarri, þriðju og fjórðu hæð.“ Hún segir að vinningstillagan vinni mjög vel með ráðhúsinu eins og það lítur út nú. Hún sé hógvær og stílhrein og geri ekki ráð fyrir neinni byltingu á útliti hússins.

Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær - Akureyararbær

Áætlað að ljúka framkvæmdum á þremur árum 

„Við munum nú vinna áfram með Yrki arkitektum að frekari útfærslu og hönnun á húsinu og kostnaðarmati á þessari tillögu og koma henni í það form að við höfum efni á því að gera þetta,“ segir Ásthildur. Gert sé ráð fyrir að viðbyggingu og breytingum verði lokið á næstu þremur árum.

Markmiðið að færa alla miðlæga starfsemi á einn stað

Markmið bæjaryfirvalda á Akureyri með þessum framkvæmdum er að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað, en stjórnsýslan er í dag til húsa bæði að Geislagötu 9 og Glerárgötu 26. Með því að sameina alla þessa starfsemi undir einu þaki, í húsnæði sem er alfarið í eigu Akureyrarbæjar, náist fram umtalsvert hagræði og mun lægri rekstrarkostnaður til lengri tíma litið. Auk þess segir Ásthildur kominn tími á miklar endurbætur á húsinu og innviðum þess.

Verkefnið inni í þriggja ára áætlun bæjarins

Hún segir að gert hafi verið ráð fyrir þessu verkefni í þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar og því séu ákveðnir fjármunir þar fráteknir. „En eins og ég segi, það á eftir að kostnaðargreina þetta frekar og sjá hvort að það passar inn í okkar ramma. Og þá þurfum við að skala verkefnið þannig að það uppfylli okkar kostnaðarramma.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV