Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðsjárverð staða en leggur ekki til hertar aðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Íslands, segir að með aukningu síðustu daga í Covid-19 smitum sé nýr kafli hafinn í baráttunni gegn kórónuveirunni. Hann hyggst þó ekki skila heilbrigðisráðherra tillögum að hertum ráðstöfunum að svo stöddu.

Kallað var til upplýsingafundar í fyrsta sinn í 49 daga í morgun. Sóttvarnalæknir segir vera að leggja mat á möguleikann á nýjum aðgerðum vegna aukningu smita en hyggst þó halda að sér höndum í bili.

Þórólfur rakti að 26. júní var öllum sóttvarnaraðgerðum aflétt innanlands. 1. júlí var svo hætt að skima á landamærum þá erlendu ferðamenn sem höfðu bólusetningarvottorð undir höndum. Forsendurnar fyrir því voru mjög fá tilfelli innanlands og gott gengi í bólusetningum.

Ástæða þótti að sögn Þórólfs að láta reyna á hjarðónæmi.

Síðustu daga hefur mikil aukning smita verið rekin til smita á landamærum og til skemmtistaða. 10 smit greindust í gær, þar af 5 í sóttkví. Allir voru fullbólusettir og flest smitin af völdum Delta-afbrigðis.

Þórólfur telur fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðunni en engar tillögur til ráðherra um hertar ráðstafanir liggja þó fyrir. Ef til þess kemur verður stuðst við eldri aðgerðir sem skilað hafa árangri hér á landi.

Þórólfur minnti á að fyllsta ástæða er fyrir almenning til að passa persónulegar sóttvarnir. Fyrirtæki passi sömuleiðis sýkingavarnir, einstaklingar með undirliggjandi áhættu gæti sín sérstaklega, og heilbrigðisstofnanir gæti vel að öryggi sjúklinga.

Allir eru eftir sem áður hvattir til að fara í sýnatöku ef einhver einkenni eru um smit.

Staðan er góð að sögn Þórólfs en viðsjárverð. Baráttunni við Covid-19 sé hvergi nærri lokið.