Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varað við enn skæðari afbrigðum Covid-19

epa09291815 A health worker shows a Pfizer vaccine during a new vaccination day against covid-19 in Tegucigalpa, Honduras, 21 June 2021. Honduras resumes vaccination against covid-19 after receiving more than 212,000 doses of Pfizer donated under the Covax mechanism, promoted by the World Health Organization (WHO).  EPA-EFE/Gustavo Amador
 Mynd: EPA
Neyðarnefnd Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) varaði við því í dag að ný og enn skæðari afbrigði af Covid-19 gætu mögulega tekið að dreifast um heiminn og það gæti gert enn erfiðara að hefta heimsfaraldurinn.

„Heimsfaraldurinn er hvergi nærri búinn,“ sagði nefndin í yfirlýsingu sem gefin var út í kjölfar fundar á gær um faraldurinn. Formaður nefndarinnar, Didier Houssin, sagði í samtali við fréttamenn að síðustu vendingar í baráttunni við kórónuveiruna væru áhyggjuefni.

Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því að WHO lýsti fyrst yfir neyðarástandi vegna alþjóðlegrar ógnar af völdum Covid-19 „Við erum enn að eltast við þessa veiru og veiran er enn að elta okkur,“ sagði í tilkynningu nefndarinnar.

Sem stendur eru fjögur afbrigði af Covid-19 að dreifa sér í heimsfaraldrinum; alfa-, beta-, gamma- og síðast en ekki síst delta-afbrigðið sem breiðist hratt út og uppgötvaðist fyrst á Indlandi.

Neyðarnefndin benti á að þó skæð afbrigði væru í umferð gæti enn verra ástand verið framundan. Telur hún miklar líkur á tilkomu og í kjölfarið alþjóðlegri útbreiðslu nýrra og enn hættulegri afbrigða af Covid-19 sem enn erfiðara gæti orðið að berjast gegn.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin skilgreinir veiruafbrigði sem sérstök „áhyggjuefni“ þegar þau eru talin meira smitandi, banvænni eða geti mögulega komist framhjá bóluefnum.