Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tugir geðfatlaðra bíða eftir húsnæði í Reykjavík

Mynd: RÚV / RÚV
Þrettán geðfatlaðir einstaklingar með lögheimili utan Reykjavíkur hafa fengið úrræði á vegum borgarinnar síðustu þrjú ár. 29 eru nú á biðlista eftir búsetu, þar af eru tíu með lögheimili annars staðar. Reykjavíkurborg gerir ekki kröfu um lögheimilisskráningu í Reykjavík þegar sótt er um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar sagði í yfirlýsingu á þriðjudag að margir þeirra sem búa í húsnæði fyrir geðfatlað fólk í Reykjavík hefðu, með aðstoð Landspítalans, fært lögheimili sitt til Reykjavíkur eftir komu á geðdeild til að fá húsnæði og þjónustu sem fyrst. Var þetta gert eftir umfjöllun RÚV um fatlaðan mann sem hefur verið árum saman inni á Réttargeðdeildinni á Kleppi og beðið eftir búsetuúrræði í tvö ár.

Sex útskriftarhæfir sjúklingar eru fastir á geðdeildum Landspítalans að bíða eftir úrræði, þó ekki allir hjá borginni. Borgin vísaði gagnrýni yfirlæknis réttargeðdeildarinnar á bug um að hún væri ekki að standa sig nægilega vel, sérstaklega í ljósi þess að öryggisvistanir hefðu verið, síðan í mars, á vegum ríkisins. 

Fréttastofa hefur óskað eftir viðtölum og upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu vegna málsins, en formleg svör hafa ekki borist þaðan. Þó fengust upplýsingar um að úrræði væru í byggingu og frumvarp í smíðum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsviði, sem RÚV óskaði eftir, voru þrettán manns með lögheimili í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík af þeim 56 einstaklingum sem fengu úthlutað í húsnæði fyrir geðfatlaða, frá 2018 og fram til maí 2021. 
grafík

Þeir höfðu allir haft viðkomu á geðdeildum Landspítalans og breyttu um lögheimili áður en þeir fluttu í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.

Nú eru 29 geðfatlaðir einstaklingar á biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir því að komast í húsnæði. Af þeim eru átta með lögheimili í öðrum sveitarfélögum og tveir með ótilgreint heimilisfang.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs, Regína Ásvaldsdóttir, baðst undan viðtali og vísaði í svarið og yfirlýsingu borgarinnar. Þar er áréttað að ekki er gerð krafa um lögheimilisskráningu í Reykjavík, þegar sótt er um húsnæði fyrir fatlað fólk.