Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Suðurnesin eru land tækifæranna“

15.07.2021 - 20:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Atvinnuleysi minnkaði um 5 prósentustig á milli mánaða á Suðurnesjum og fór úr 18,7 prósentum niður í 13,7 prósent. Miklar sveiflur einkenna Suðurnesin en bæjarstjóri Reykjanesbæjar er fullviss um að framtíðin sé björt. Mörg hundruð manns hafa verið ráðin til starfa hjá fyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli undanfarnar vikur.

Hinar miklu sveiflur í atvinnumálum á svæðinu ráðast aðallega af því hversu stórir vinnuveitendur hafa verið áberandi þar í gegnum tíðina. Varnarliðið var lengi stór vinnuveitandi á svæðinu og það hafði mikil áhrif þegar það fór. Núna er flugvöllurinn uppspretta 40% af öllum efnahagsumsvifum á svæðinu, bæði beint og óbeint, og það var mikið áfall þegar hann nánast lokaði í kjölfar heimsfaraldursins og ferðatakmarkana. Núna er aftur á móti uppgangur - en það er mikilvægt að Suðurnesjamenn séu viðbúnir þessum sveiflum, segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Mikilvægt að fjölga atvinnutækifærum

„Við erum alltaf að reyna að vinna í því að fjölga atvinnutækifærum og auka fjölbreytnina,” segir Kjartan Már. Flugvöllurinn sogi til sín fólk en mikilvægt sé bæði að fjölga atvinnutækifærum og fólki en mikil fólksfjölgun hefur verið á svæðinu undanfarin ár. „Við þurfum að halda áfram til að geta fætt flugvöllinn og annað atvinnulíf af nægilega mörgum vinnandi höndum þegar allt er í botni.“

Hringrásargarður, skipasmíðastöð og ný heilsugæsla

Unnið er að því að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Sveitarfélögin á Suðurnesjum, og tíu fyrirtæki þar, skrifuðu undir viljayfirlýsingu í júní um að koma á fót Hringrásargarði á Suðurnesjum. Garðinum er ætlað að auka sjálfbærni á svæðinu og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi en meðal þess sem stendur til að gera er að byggja hátæknisorpstöð í Helguvík.

Þá eru áform Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur um nýja þurrkví, Samherji hyggst ráðast í gríðarlega uppbyggingu á Reykjanesskaganum í laxeldi og þá er ríkið að fara að byggja nýja heilsugæslustöð. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, vinnur síðan að áætlun um að þróa nærsvæði Keflavíkurflugvallar og koma þar fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi. 

Eru vonandi á leið upp úr öldudalnum

Að sögn Kjartans Más eru fjölmörg tækifæri á Suðurnesjum. „Suðurnesin eru land tækifæranna. Það er mikill uppgangur og ekki bara í ferðaþjónustunni,” segir hann. „Það er mjög oft gaman hjá okkur en það getur líka verið mjög erfitt og mikið mótlæti. Við erum vonandi að komast upp úr einum slíkum öldudal núna.”