Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjúkrastofnanir fylgjast grannt með og meta framhaldið

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi Almannavarna klukkan 11 í dag vegna fjölgunar kórónuveirusmita undanfarna daga. Þórólfur hvatti hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir til að skerpa á umgengisreglum meðan á uppsveiflunni stendur.

Þetta er fyrsti upplýsingafundurinn síðan 27. maí. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekara framhald funda. Fimm greindust smitaðir í fyrradag, allir utan sóttkvíar. Síðustu daga hafa um þrír til fimm smitaðir komið til landsins á degi hverjum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við fréttastofu í gær að staðan nú minnti á upphaf þriðju bylgju faraldursins og að huga þyrfti að umgengni við sjúkrastofnanir. 

Að sögn Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistuheimilanna er stöðugt fylgst með ástandinu og metið hvort herða þurfi á reglum. Nánast allir íbúar séu bólusettir sem veiti ákveðna vörn fyrir miklum veikindum.

„En við höfum ákveðið að gera það ekki að sinni en það sem við viljum og munum óska eftir er að aðstandendur geri eins og þau hafa gert áður og aðrir sem koma inn í hjúkrunarheimilin. Að bara virða sóttvarnir, muna eftir handþvotti og spritti. Og ekki koma inn með einkenni. “

María Fjóla segir gott að geta nýtt tækifærið núna til að minna á það og að trúlega sendi Hrafnistuheimilin fljótlega frá sér yfirlýsingu hvað það varðar. 

Hildur Helgadóttir verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítalans sagði við fréttastofu í gær að líkur væru á að umgengnisreglur á spítalanum verði hertar á næstu dögum. Slakað var á reglum um mánaðamótin.

Heimsóknartímar spítalans eru enn takmarkaðir, aðeins mega tveir gestir heimsækja hvern sjúkling samtímis og allir gestir þurfa að bera grímu.