Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Læst veðrakerfi hafa áhrif á veðurfar

15.07.2021 - 22:05
Mynd: AP / AP
Á fimmta tug eru látnir í Þýskalandi og Belgíu af völdum mannskæðra flóða í Vestur-Evrópu. Ár hafa flætt yfir bakka sína og valdið miklum skaða. Á meðan gengur hitabylgja yfir Finnland og í Noregi er þrumuveður. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir að líklega sé þessi mikla úrkoma afleiðing læsingar á veðrakerfum í Evrópu.

Elín Björk var gestur Síðdegisútvarpsins í dag. Hún segir að veðrið sem sjá megi í Vestur-Evrópu og Noregi um þessar mundir sé óvenjulegt og það sama gildir einnig um hitabylgjuna sem gengur yfir Finnland.

Hina miklu úrkomu í Vestur-Evrópu má líklega útskýra með því að þar er það sama á ferðinni og virðist vera að gerast hérlendis, það er að veðrakerfi eru læst. Raki og hiti byggist upp sunnar í Evrópu og lægð utan af hafi, með mikinn raka, hefur komið inn yfir Þýskaland. Þegar lægðin náði inn í fjöll eða dali fór að rigna. 

Gæti tengst hnatthlýnun

Aðspurð hvort þetta veðurfar sé afleiðing hnatthlýnunar segir Elín að vissulega hafi ekki liðið sumar síðustu ár án þess að það sé mannskæð hitabylgja eða flóð í Evrópu. Þó sé ekki hægt að tengja staka atburði við loftslagsbreytingar. „En það má segja sér að ef bakgrunnshitinn hefur hækkað um 1,5 gráður, ef það kemur hitabylgja ofan í svoleiðis ástand er hún miklu skæðari en hún væri annars,“ segir Elín.

Veðrakerfin líka læst hérlendis

Elín segir að veðurfræðingar hafi tekið eftir áhrifum þess að veðrakerfin læsist hér á landi. Sem dæmi um það er hvernig sumrin á Íslandi hafa verið skipt undanfarin ár. „Annað hvort vestanvert eða austanvert landið liggur í þoku eða rigningu og sólin er þá hinum megin og það sama gildir um veturna.“ Hún segir að svo virðist vera sem eitthvað sé að gerast í háloftunum en það þurfi að rannsaka betur. 

Líklegt er að þessi læsing á veðrakerfunum verði áfram í einhvern tíma. Finnar sjá til dæmis ekki fyrir endann á hitabylgjunni sem gengur yfir landið og þá eru líkur á að úrkomuveðrið, sem gengur yfir Þýskaland og Belgíu um þessar mundir, færist norður á bóginn. 

Hlusta má á viðtalið við Elínu Björk í spilaranum hér að ofan. 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV